Samgönguráðherra vakti máls á alvarlegu ástandi vega fyrir vestan við ríkisstjórnarborðið í gær og talaði um mikilvægi þess að verja auknu fé til viðhalds. Málinu var vísað til ráðherranefndar um ríkisfjármál. Í lok febrúar sendu sveitarfélögin á Vesturlandi og Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi forsætisráðherra bréf vegna neyðarástands í vegamálum.
Í bréfinu sem dagsett er 21. febrúar, fóru sveitarfélögin fram á fund með forsætisráðherra og fagráðherrum um skipan viðbragðshóps um aðgerðir til að tryggja öryggi íbúa á Vesturlandi og annarra vegfarenda. Þá finnst þeim líka brýnt að laga vegina til að skaða ekki atvinnu- og mannlíf. Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi fundaði síðan með samgönguráðherra og forsætisráðherra á mánudaginn síðastliðinn en stjórnin varð þess áskynja á fundinum að ríkisstjórnin væri meðvituð um alvarleika málsins.
Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra lagði fram minnisblað í ríkisstjórn í gær og sendi fjármálaráðherra bréf þar sem hann undirstrikar nauðsyn þess að Vegagerðin fái aukið fjármagn til að sinna viðhaldi fyrir vestan.
„Ég er búinn að eiga fund með Vegagerðinni og svo skrifaði ég bréf til fjármálaráðherra og tók þetta mál upp í ríkisstjórn sem mér ber, sem mikilvægt stjórnarmálefni og þessu verður vísað til ráðherranefndar um ríkisfjármál þar sem þetta verður tekið fyrir og vonandi kemur úr þeirri umræðu þar aukið fé í viðhald á vesturlandi, það er gríðarlega mikilvægt.“
Því fyrr sem fjármagn fáist til viðhalds, því betra.
„Þá væri hægt að framkvæma meira í sumar. Það er ákveðin hætta að það verði farið að breyta vegum á Vesturlandi í malarvegi eins og var gert í fyrra, það er kominn fræsari í Búðardal, það verður farið í að gera það, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni ef ástand vega er orðið það slæmt að hættulegt er að keyra þá, þá verður farið í að gera það. Þetta er gömul innviðaskuld sem við erum að eiga við á Vesturlandi og við verðum að taka á því,“ segir Eyjólfur.
Heimild: Visir.is