
Borgarráð Reykjavíkur hefur gefið grænt ljós á umfangsmikla endurgerð hraðahindrana í borginni á árinu 2025. Verkefnið verður boðið út í tveimur áföngum og er stefnt að því að framkvæmdir hefjist í maí og ljúki í september.
Verkefnið nær til fjölmargra hverfa, þar á meðal Laugardals, Háaleitis- og Bústaðahverfis, Grafarvogs og Breiðholts. Framkvæmdir fela í sér jarðvinnu, malbikun, uppsetningu umferðarmerkja og yfirborðsmerkinga, auk lagningar granítkantsteina og upprampa. Áætlaður heildarkostnaður er um 200 milljónir króna.
Í tilkynningu frá borginni kemur fram að markmiðið sé að bæta öryggi og aðgengi vegfarenda. Lokanir gatna verða í samráði við Strætó og aðra hagaðila til að lágmarka truflun á umferð.
Endurgerðin nær til eftirtalinna staða:
- Við Álfheima í Laugardal
- Við Skeiðarvog í Laugardal
- Við Listabraut í Háaleitis- og Bústaðahverfi
- Við Langarima í Grafarvogi
- Í Norðurfelli við Fannarfell
- Í Norðurfelli við Eddufell
- Í Suðurhólum
- Í Austurbergi við Suðurhóla
- Í Vesturhólum við Arahóla
Framkvæmdirnar eru sagðar hluti af öryggisverkefni borgarinnar sem miði að því að gera borgina örugga og aðgengilega fyrir alla vegfarendur.
Heimild: Visir.is