Home Fréttir Í fréttum Ná saman um hundruð milljarða upp­gjör ÍL-sjóðs

Ná saman um hundruð milljarða upp­gjör ÍL-sjóðs

9
0
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra Ljósmynd: Aðsend mynd

Í tengslum við uppgjörið gefur ríkissjóður út ný ríkisskuldabréf að fjárhæð 540 milljarða króna sem verða afhend kröfuhöfum.

Viðræðunefnd fjármálaráðherra og ráðgjafar 18 lífeyrissjóða hafa saman mótað tillögur um uppgjör íbúðabréfa (HFF-bréfa) sem greiða mun fyrir slitum ÍL-sjóðs, gamla Íbúðalánasjóðs. Verkefnisstjórn ÍL-sjóðs hefur lagt til við fjármálaráðherra að unnið verði að framgangi tillögunnar.

„Með þessu uppgjöri er gert upp að fullu við eigendur bréfanna, sem í flestum tilfellum eru lífeyrissjóðir landsins, og bundinn endir á óvissu tengdri uppgjöri á ríkisábyrgð á skuldum ÍL-sjóðs, með hagfelldum hætti fyrir alla hagsmunaaðila,“ segir í tilkynningu fjármálaráðuneytisins.

Gefa út ríkisskuldabréf fyrir 540 milljarða
Í tillögunum felst að kröfur verða efndar með afhendingu ríkisskuldabréfa, annarra verðbréfa og reiðufjár í gjaldeyri og íslenskum krónum. Með þessu verði ÍL-sjóði gert kleift að standa við skuldbindingar sínar gagnvart eigendum HFF-bréfanna og öðrum kröfuhöfum, að því er segir í fréttatilkynningu.

Í tengslum við uppgjörið gefur ríkissjóður út ný ríkisskuldabréf að fjárhæð 540 milljarða króna þar sem m.a. er gerð upp eldri skuld ríkissjóðs við ÍL-sjóð að fjárhæð 238 milljarða króna auk þess sem ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum ÍL-sjóðs er gerð upp.

Virði HFF-bréfanna í uppgjörinu er metið 651 milljarður króna. Í uppgjörstillögunum felst að ÍL-sjóður og íslenska ríkið afhendi kröfuhöfum áðurnefnd ríkisskuldabréf að andvirði 540 milljarðar króna, önnur verðbréf í eigu ÍL-sjóðs að andvirði 38 milljarðar, gjaldeyri og reiðufé að andvirði 73 milljarðar.

Ríkissjóður mun taka við hluta af vaxtaberandi eignum ÍL-sjóðs, samtals að fjárhæð um 222 milljarðar króna en þar er um að ræða húsnæðislánasafn ÍL-sjóðs auk annarra verðbréfa.

Tillögur ráðgjafa og viðræðunefndar verða lagðar fyrir fund skuldabréfaeigenda til samþykktar, en samþykki 75% kröfuhafa þarf til. Reiknað er með að sá fundur fari fram í apríl. Verði tillögurnar samþykktar mun fjármálaráðherra í framhaldi sækja heimild til Alþingis til að ljúka uppgjörinu með frumvarpi til fjáraukalaga.

„Með þessum tillögum skapast grundvöllur til að ljúka langvinnu úrlausnarefni ríkissjóðs en viðræður um málið hafa staðið yfir í rúmlega eitt ár,“ segir í tilkynningu frá hópi lífeyrissjóða.

Ríkisábyrgðir lækki um 88%
Fjármálaráðuneytið áætlar að aðgerðin skili jákvæðu greiðsluflæði til ríkissjóðs á næstu árum og að skuldahlutföll A-hluta ríkissjóðs muni að loknum öllum ráðstöfunum vegna uppgjörsins batna um a.m.k. 5% af vergri landsframleiðslu.

Ríkisábyrgðir muni jafnframt lækka um 88% miðað við stöðu í árslok 2024. Verðbréf, sem ríkissjóður hefur gefið út eða ábyrgst, munu við uppgjör HFF bréfanna lækka um 111 milljarða króna að markaðsvirði.

„Það er virkilega ánægjulegt að aðilar hafa náð saman um tillögu að samkomulagi í málefnum ÍL-sjóðs. Hljóti tillagan samþykki kröfuhafa og Alþingis næst að ljúka erfiðu máli með hagsmuni allra aðila að leiðarljósi,” segir Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra‏.

„Tillagan byggir á viðræðum sem hafa átt sér stað í rúmlega eitt ár þar sem unnið hefur verið af kostgæfni að ljúka málinu með farsælum hætti. Full ástæða er til að undirstrika mikilvægi þess að viðræðunefndirnar náðu saman í þessu snúna máli. Kröfuhafar ÍL-sjóðs, sem eru í langflestum tilfellum lífeyrissjóðir, fá gert upp að fullu og óvissu um málefni sjóðsins er eytt. Þá nær ríkissjóður að stöðva skuldasöfnun ÍL-sjóðs sem er stórt hagsmunamál fyrir allan almenning.”

Heimild: Vb.is