
Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið jákvætt í ósk Landspítalans um að koma fyrir færanlegri einingu við bráðamóttökuna í Fossvogi.
Samkvæmt greinargerð spítalans til skipulagsfulltrúa er húsnæði bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi í dag of lítið fyrir þá þjónustu sem þar er veitt. Tillagan gerir ráð fyrir húsnæði fyrir matsdeild með 20 legurúmum á einni hæð sem þarf að vera um 660 fermetrar. Hún verði sett upp norðvestan við núverandi bráðamóttöku.
Gert er ráð fyrir að húsnæðið uppfylli allar byggingatæknilegar kröfur sbr. reglur og ríkar kröfur verða gerðar til brunahönnunar. Framkvæmdin sé algerlega afturkræf með lágmarksinngripi í núverandi byggingar á lóðinni.
Mikil aukning hefur orðið á álagi á alla starfsemi spítalans með hækkandi aldri og fólksfjölgun þjóðarinnar, segir í greinargerð Landspítalans. Núverandi húsnæði sé löngu sprungið og fullnægi vart lengur nútímakröfum um húsnæði sjúkrahúsa.
„Mjög þröngt er um sjúklinga og starfsfólk og má fullyrða að ástandið með vaxandi komuálagi sé orðið óbærilegt þar sem sjúklingar þurfa að liggja á göngum spítalans og í rýmum sem ekki voru hugsuð fyrir klíníska starfsemi,“ segir í greinargerðinni.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is