Bæta á tveimur bíósölum við Smárabíó og uppfæra skemmtisvæði bíósins. Á sama tíma er unnið að endurnýjun og fjölgun veitingastaða í austurenda Smáralindar. Gert er ráð fyrir því að þrettán nýir veitingastaðir bætist við þar. Nýir bíósalir opna í haust. Í Smárabíó eru fyrir fimm bíósalir sem rúma um þúsund manns samanlagt.
„Aðsóknin í Smárabíó og á skemmtisvæðið okkar hefur verið með besta móti og því var ákveðið að ráðast í stækkun og endurbætur á sama tíma og Smáralind hófst handa viðfrekari stækkun og endurnýjun á veitingasvæðinu í austurendanum. Hjá Smárabíó bætast við tveir nýir bíósalir, gólfpláss bíósvæðisins eykst til muna og skemmtisvæðið okkar verður uppfært verulega“ segir Konstantín Mikaelsson, framkvæmdastjóri Smárabíós, í tilkynningu um málið.
Bíóið í fullum rekstri á meðan
Hann segir upplifun gesta verða enn betri með þessum breytingum. Þá muni úrval kvikmynda aukast þegar nýju salirnir verða opnaðir í haust. Samkvæmt tilkynningu er stefnt að því að framkvæmdir á skemmtisvæðinu muni hefjast fyrir áramót. Á skemmtisvæðinu verður boðið upp á skemmtun fyrir allra handa vinahópa, fjölskyldur, afmælishópa, fyrirtæki og einstaklinga.
Hann ítrekar að Smárabíó verður í fullum rekstri meðan á þessum breytingum stendur.
„Þetta verður mikil breyting fyrir bíógesti hjá Smárabíói sem eiga eftir að njóta enn meiri þæginda í nýjum bíósölum innan fárra mánaða,“ segir Konstantín.
Framkvæmdir eru hafnar við nýtt veitingasvæði og verða þar, samkvæmt tilkynningunni, veitingastaðir sem munu bjóða upp á allt frá skyndibitum til fínni veitinga.
Heimild: Visir.is