Helgu Þórisdóttur, forstjóra Persónuverndar, var gert að rífa bílskýli sem byggt var nærri heimili hennar í Fossvogi samkvæmt ákvörðun byggingarfulltrúa og staðfest af skipulagsfulltrúa. Málið er á borði úrskurðarnefndar auðlinda- og umhverfismála.
DV segir fyrst frá.
Bílskýlið var byggð með samþykki meðlóðarhafa en ekki hafði fengist leyfi frá borginni fyrir framkvæmdinni. Því tilkynnti byggingarfulltrúi Helgu í ágúst í fyrra að skúrinn og bílskýlið þyrftu að víkja.
Voru þeim gefnir 90 dagar til þess að rífa bygginguna. Öðrum kosti yrðu lagðar á dagsektir upp á 25 þúsund krónur.
Óskuðu hjónin Helga og Theodór Sigurðsson eftir áliti skipulagsfulltrúa í framhaldinu sem staðfesti að rífa bæri mannvirkið og að ekki væri heimild til þess að bæta við nýrri bílageymslu. Sú ákvörðun er svo til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.
Í frétt DV um málið segir að byggingarfulltrúi hafi svo sent bréf 23. janúar þar sem fram kemur að lagðar yrðu dagsektir frá og með þeim degi.
Kærðu þau einnig ákvörðun byggingafulltrúa um að hefja að veita dagsektir á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefnd og dæmdi úrskurðarnefnd Helgu og Theodóri í hag hvað varðar þann hluta málsins og verður þeim ekki gert að greiða dagsektirnar að svo stöddu.