Bæjarstjórinn í Garðabæ segir að bygging nýs meðferðarheimilis strandi ekki á bænum. Skrifað var undir viljayfirlýsingu um heimilið fyrir meira en sex árum.
Bæjarstjóri Garðabæjar segir að ekki standi á bænum að reisa nýtt meðferðarheimili, en það hefur staðið til í meira en sex ár. Viljayfirlýsing Garðabæjar, Barnaverndarstofu og stjórnvalda var undirrituð undir lok árs 2018.
Þáverandi velferðarráðherra, Ásmundur Einar Daðason, sagðist við það tækifæri vona að heimilið yrði tilbúið árið 2020 – en ekkert bólar á meðferðarheimilinu.
Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ segir að ekki standi á þeim að hefja framkvæmdir. „Þetta strandar ekki á okkur. Lóðin er klár og skipulagið er löngu klárt,“ segir Almar. Lóðin er að Friðarvöllum 1, nærri Vífilsstaðavatni.
Garðabær og ríkið hafa átt í viðræðum um gatnagerðagjöld, sem málið virðist stranda á.„Því miður hafa samskiptin verið þannig að okkur hefur ekki verið svarað upp á síðkastið varðandi ákveðna þætti sem tilheyra svona málum og verður að leysa úr,“ segir Almar.
Skortur á öryggisvistun og neyðarvistunarrýmum hefur mikið verið til umræðu undanfarið. Meðferðarheimilið í Garðabæ átti samkvæmt viljayfirlýsingunni að vera fyrir unglinga sem þurfa sérhæfða meðferð vegna alvarlegs hegðunar- og/eða vímuefnavanda, og þar áttu börn á aldrinum 15-17 ára að geta afplánað óskilorðsbundna fangelsisdóma eða gæsluvarðhald.
Núna eru börn á Stuðlum í afplánun eða gæsluvarðhaldi, innan um börn með ólíkar þarfir. „Við ítrekum það bara hér í ljósi umræðunnar í samfélaginu að það er mikilvægt að við fjölgum svona úrræðum og það mun ekki standa á okkur varðandi þessa lóð að leysa úr því í samvinnu við ríkisvaldið,“ segir Almar.
Heimild: Ruv.is