Íbúðir í heilli íbúðablokk sem nýlega voru auglýstar til leigu fyrir 60 ára og eldri á Akureyri leigðust allar út fljótt og vel. Eigandi blokkarinnar, Stefán Þór Ingvason, segir að eftirspurnin hafi verið það mikil að hann hefði auðveldlega getað fyllt aðra blokk hefði hann átt hana til.
Blokkin sem um ræðir er nýbygging við Kjarnagötu 53 en í henni eru alls 16 íbúðir, 75-110 fm að stærð.
„Áhuginn á íbúðunum kom mér ekki beinlínis á óvart enda er mikill skortur á leiguhúsnæði á Akureyri, bæði fyrir eldri borgara og aðra. Ég auglýsti opið hús fyrir 60 ára og eldri og það eru greinilega margir á mínum aldri og upp úr, sem eru að selja stórar eignir, vilja frekar búa í minni og þægilegri leiguíbúðum þar sem þeir þurfa ekki að hugsa um viðhald eða húsfélagsmál,“ segir Stefán Þór við Akureyri.net.
Þá bendir hann líka á þá staðreynd að þeir sem hafi losað um fjármagn úr stærri eignum vilji margir hverjir frekar leigja en kaupa þar sem vextir á bankainnstæðum hafa verið góðir undanfarið.

Ætlaði ekki að kaupa heila blokk
Stefán, sem er 61 árs, starfaði lengst af sem skipstjóri hjá Samherja en á undanförnum árum hefur hann og eiginkona hans, Heiðbjört Þórarinsdóttir, verið að fjárfesta í fasteignum á Akureyri. Upphaflega hafi það byrjað þannig að þau hafi viljað tryggja húsnæði fyrir börnin sín fjögur, en síðar hafi aðrar eignir bæst við. Þegar upp kom hugmyndin að kaupa heila blokk í bænum, sá Stefán tækifæri í því að hagræða í eignasafninu og koma flestum af sínum eignum á einn stað.
„Ég var alltaf á ferðinni um bæinn með sláttuvélina í bílnum að slá gras við mismunandi eignir. Mig langaði til þess að einfalda hlutina aðeins. Upphaflega ætlaði ég bara að kaupa sex íbúðir í blokkinni, sem byggð er af fyrirtækinu BB byggingar.
Síðan bættust fjórar búðir við og fyrst íbúðirnar voru orðnar 10 þá fór ég að velta fyrir mér hvað öll blokkin kostaði eiginlega,“ segir Stefán sem endaði á því að kaupa alla blokkina í desember.

60 ára og eldri góðir leigjendur
Stefán segir að hugmyndin að sérhæfa blokkina fyrir 60 ára og eldri hafi annars vegar komið frá vini hans, Sveini Heiðari Sveinssyni, sem hafði góða reynslu af því að leigja eldra fólki og hins vegar vegna þess að hann vissi að það væri hörgull á húsnæði fyrir þennan aldurshóp í bænum. Blokkin við Kjarnagötu er með bílakjallara, lyftu, svalalokun og aðeins fjórum íbúðum á hverri hæð, svo hún var kjörin í útleigu fyrir þennan aldurshóp.
Reyndar eru ekki alveg allir íbúar blokkarinnar orðnir 60 ára, en hugmyndi Stefáns er þó að leggja áherslu á 60+ leigjendur. „Það er ákveðinn stöðugleiki sem fylgir þessum aldurshópi. Eldri borgarar flytja sjaldnar á milli húsnæða og eru traustir leigjendur,“ segir Stefán og bætir við að þá þurfi hann ekki lengur að rúnta um með sláttuvélina næsta sumar og slá grasið við blokkinu þar sem lóðin verður með gervigrasi.

Skortur á leiguhúsnæði
Þrátt fyrir að blokkin við Kjarnagötu sé stærsta fasteignafjárfesting þeirra hjóna fram til þessa, útilokar Stefán ekki frekari fasteignakaup í framtíðinni. „Mér finnst gaman af fasteignum og það er aldrei að vita hvort maður grípi önnur tækifæri ef þau bjóðast. Það er skortur á leiguíbúðum fyrir 60+ og góður kostur fyrir marga á þessum aldri að fara í vandað leiguhúsnæði í stað þess að kaupa og reka eigið húsnæði,“ segir hann að lokum.
Heimild: Akureyri.net