Home Fréttir Í fréttum Hornsteinn lagður að byggingu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur

Hornsteinn lagður að byggingu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur

199
0
Mynd: Verkís

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, lögðu hornstein að byggingunni og fluttu stutt ávörp. Karlakórinn Fóstbræður söng og athöfninni stjórnaði Auður Hauksdóttir, forstöðumaður stofnunarinnar.

<>

Byggingin mun hýsa Vigdísarstofnun – alþjóðlega miðstöð tungumála og menningar, sem mun starfa undir merkjum UNESCO. Þar verður starfrækt fræðslu- og upplifunarsetur og í húsinu er aðstaða fyrir fyrirlestra-, ráðstefnu- og sýningarhald, vinnuaðstaða fyrir erlenda gestafræðimenn og fyrir kennslu og rannsóknir í erlendum tungumálum. Þar verður einnig Vigdísarstofa, tileinkuð Vigdísi Finnbogadóttur, þar sem hægt verður að fræðast um líf hennar og störf. Fjölmargir innlendir og erlendir aðilar hafa stutt verkefnið með myndarlegum fjárframlögum.

Fyrsta skóflustungan að byggingunni var tekin 8. mars 2015, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, af Vigdísi Finnbogadóttur, Illuga Gunnarssyni mennta- og menningarmálaráðherra og Kristínu Ingólfsdóttur, fv. rektor. Það þótti því einkar viðeigandi að leggja hornsteininn 19. júní, þegar kosningaréttar íslenskra kvenna er minnst. Arkitektar að húsinu eru vinningshafar í hönnunarsamkeppni, sem fram fór árið 2012, en að tillögunni stóðu þeir Gunnlaugur Magnússon, Haraldur Örn Jónsson, Hjalti Parelius, Hjörtur Hannesson og Kristján Garðarsson frá arkitektastofunni arkitektur.is.

Verkís annaðist alla verkfræðihönnun hússins. Áætlað er að byggingin verði formlega tekin í notkun á vordögum 2017.

Heimild: Verkís.is