
Byggingafélag námsmanna og Alverk ehf. hafa samið um byggingu 70 nýrra námsmannaíbúða ásamt byggingu leikskóla við Arnarbakka í Breiðholti. Framkvæmdir eru að hefjast við niðurrif eldri verslunarhúsa sem eiga að víkja, en í stað þeirra koma tvær byggingar með leikskóla og 70 einstaklings og fjölskylduíbúðum á efri hæðum.
Reiknað er með að uppbygging hefjist strax í vor og íbúðirnar verði teknar í notkun á 3. og 4. ársfjórðungi 2027. Verkfræðistofan Dynja sér um byggingastjórn og eftirlit með framkvæmdum.
Böðvar Jónsson framkvæmdastjóri Byggingafélags námsmanna sagðist ánægður með að verkefnið sé loksins komið á framkvæmdastig en undirbúningur hefur staðið í tæp fimm ár. Að jafnaði eru á bilinu 2-300 einstaklingar og fjölskyldur á biðlista eftir íbúðum hjá félaginu og mun framkvæmdin hjálpa til við að vinna á þeim.
Aðalgeir Hólmsteinsson framkvæmdastjóri Alverks, segir að hönnunarvinna arkitekta og verkfræðinga sé komin í fullan gang og að eiginlegar framkvæmdir hefjist svo í beinu framhaldi, nú á vormánuðum.
Heildarframkvæmdakostnaður verkefnisins er rúmlega 4 milljarðar króna og er verksamningurinn í alverktöku.
Heimild: Alverk ehf.