Húnvetningar bíða spenntir eftir að gamla félagsheimilið á Hvammstanga verði tekið í gegn. Sveitarfélagið áformar viðgerðir og breytingar á húsinu fyrir 300 milljónir.
Árið 1969 vígðu Húnvetningar glænýtt félagsheimili sitt við hátíðlega athöfn. Kristján Eldjárn forseti fékk höfðinglegar móttökur í húsinu sama ár og þar hafa í gegnum árin verið haldnar óteljandi veislur, böll, bíósýningar og aðrir viðburðir.
Heimamenn byggðu húsið að mestu sjálfir og hafa til þess sterkar taugar. Viðhaldi hefur ekki verið sinnt í langan tíma og húsið hefur séð betri daga.
Viðgerðir á húsinu taka væntanlega nokkur ár en auk þeirra á að ráðast í umfangsmiklar endurbætur til að húsið þjóni betur breyttum þörfum samfélagsins. Áætlaður kostnaður er 320 milljónir króna, sem er stór biti fyrir tólf hundruð manna sveitarfélag.
Heimild: Ruv.is