Stór stund var fyrir Færeyinga um helgina þegar ný þjóðarhöll fyrir íþróttir var formlega vígð í Þórshöfn. Færri komast að en vilja á fyrsta landsleikinn sem þar fer fram því allir miðar seldust upp á örfáum mínútum.
Grannar okkar og frændur í Færeyjum vígðu um helgina nýja og glæsilega þjóðarhöll fyrir innanhúsíþróttir. Eftirvæntingin var mikil og mættu hundruð manns til að berja dýrðina augum að því er færeyska Kringvarpið greinir frá.
Höllin er við Tjarnir í Hoyvík rétt utan við Þórshöfn. Fyrsta skóflustunga hallarinnar var tekin í desember fyrir rúmlega tveimur árum. Höllin er af fullkomnustu gerð og tekur 2.200 áhorfendur í sæti á handboltaleiki auk 500 fyrir standandi. Þá tekur hún 3.200 í sæti á aðra viðburði eins og tónleika og sýningar eða 4.700 standandi áhorfendur.
Höllin leysir af hólmi Höllina á Hálsi sem hefur verið þjóðarhöll Færeyinga frá árinu 1970. Hún er hins vegar löngu úrelt og ekki lögleg fyrir alþjóðaviðburði í íþróttum, ekki frekar en nokkurt íþróttahús hér á Íslandi.

kvf.fo / Færeyska Kringvarpið
Snör handtök Færeyinga
Karla- og kvennalið Færeyja í handbolta hafa á síðustu árum þreytt frumraunir sínar á stórmótum en ný þjóðarhöll var sett á áætlun eftir að 19 ára lið karla komst í lokakeppni Evrópumóts sumarið 2021. Færeyingar höfðu því snör handtök því tæpum fjórum árum síðar er höllin komin í notkun.
Þetta glæsilega mannvirki í Þórshöfn kostaði 164 milljónir danskra króna sem samsvarar rúmlega 3,2 milljörðum íslenskra króna. Rekstur hallarinnar er í höndum sjálfseignarstofnunarinnar Føroya Arena.
Uppselt á nokkrum mínútum
Fyrsti landsleikurinn í nýju höllinni verður leikur karlalandsliðs Færeyja við Holland í undankeppni EM í handbolta þann 12. mars. Á fréttavef Kringvarpsins segir í fyrirsögn að höllin sé of lítil fyrir leikinn. 2.500 miðar fóru í sölu og seldust þeir upp á örfáum mínútum.

kvf.fo / Færeyska Kringvarpið
Á undan Íslendingum
Færeyingar standa nú Íslendingum framar í mannvirkjamálum fyrir innahússíþróttir, í það minnsta til ársins 2029. Þá er fyrirhugað að byggingu nýrrar þjóðarhallar verði lokið í Laugardal. Hún á að taka 8.600 manns í sæti og er kostnaður áætlaður um 14,2 milljarðar króna.
Heimild: Ruv.is