Færeyjar opna Þjóðarhöll sína fyrir innanhússíþróttir, Við Tjarnir, á laugardaginn. Verið er að ljúka við síðustu verkin innandyra og utan svo allt verði tilbúið fyrir vígsluathöfina á laugardaginn.
Fyrsti landsleikurinn í Þjóðarhöllinni fer fram 12. mars þegar Færeyingar mæta Hollendingum í undankeppni Evrópumóts karla í handknattleik. Fyrsta skóflustunga Þjóðarhallarinnar, sem er í Hoyvík á Þórshafnarsvæðinu, var tekin 22. desember 2022.
Hér fyrir neðan er hlekkur á myndskeið frá Kringvarpinu þar sem farið er um húsið og rætt við framkvæmdastjóra þess:
Höllin, sem er hin glæsilegasta og búin öllum fullkomnasta búnaði, á að rúma allt að 2.700 áhorfendur í sæti á handboltaleikjum og 4.600 áhorfendur á standandi viðburðum s.s. tónleikum. Einnig býður hún upp á mikla möguleika til sýningahalds og ráðstefna.
Mikill metnaður var lagður í framkvæmdina auk þess sem salir og stúkur hallarinnar bera færeysk heiti.
Leysir af Høllina á Hálsi
Þjóðarhöllin, Við Tjarnir, leysir af hólmi Høllina á Hálsi sem hefur verið helsta keppnishöll innanhússíþrótta í Færeyjum frá 1970. Høllin á Hálsi er barn síns tíma og uppfyllir ekki kröfur sem gerðar eru til alþjóðlegrar keppni, m.a. í handknattleik né rúmar hún alla þá Færeyinga sem vilja mæta á kappleiki landsliðanna í handknattleik kvenna og karla sem hafa tekið stórstígum framförum á síðustu árum og gert sig gildandi í lokakeppni stórmóta.
Heðin Mortensen þáverandi borgarstjóri Þórshafnar hét því sumarið 2021 þegar 19 ára landslið karla tryggði sér sæti í A-keppni Evrópumóts að beita sér fyrir byggingu nýrrar Þjóðarhallar innan fárra ára. Mortensen fylgdi orðum sínum fast eftir og nú er keppnishöllinn tilbúin.
Heimild: Handbolti.is