Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur vísað stjórnsýslukæru Búseta vegna Álfabakka 2 frá. Meðan málið var til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni barst tilkynning frá byggingarfulltrúanum í Reykjavík um að framkvæmdir við kjötvinnsluna yrðu tafarlaust stöðvaðar.
Ástæða stöðvunarinnar var sögð vera að við nánari skoðun á aðaluppdráttum hefði þurft að gera betur grein fyrir 3.200 fermetra rými sem áætlað er fyrir kjötvinnsluna og að ekki liggi fyrir upplýsingar um hvort félagið hafi tilkynnt til Skipulagsstofnunar um fyrirhugaða kjötvinnslu og líkleg umhverfisáhrif hennar.
Úrskurðarnefndin álítur að fram sé komin ný afstaða byggingarfulltrúa og hún geti leitt af sér nýja stjórnvaldsákvörðun sem mögulegt er að verði borin undir nefndina til úrskurðar.
Að vissu leyti skiljanlegur úrskurður
„Með hliðsjón af þessu sem og því sem ráða má af tilkynningunni þykir ekki tilefni fyrir úrskurðarnefndina að fjalla frekar um málið og verður því af þeim sökum vísað frá,“ segir jafnframt í úrskurðinum. Erlendur Gíslason lögmaður Búseta segir úrskurð kærunefndar að vissu leyti skiljanlegan þar sem byggingarfulltrúi tók nýja ákvörðun í málinu eftir að kæran var send nefndinni.
„Nefndin leit svo á að byggingarfulltrúi hefði þar með afturkallað hina kærðu ákvörðun sem snerist um stöðvun framkvæmda og að málið væri aftur komið til meðferðar borgarinnar. Jafnframt má ætla að kæra Búseta til úrskurðarnefndarinnar hafi haft áhrif á framvindu málsins og knúið byggingarfulltrúa til þess að skoða málið nánar, þegar hann þurfti að bregðast við kærunni, og það leitt til þess að hann stöðvaði framkvæmdir að hluta rúmum tveimur vikum eftir framlagningu kærunnar.“
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is