Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir að enn sé unnið að því að finna betri stað fyrir innanlandsflug í stað flugvallarins í Vatnsmýri. Þó sé ljóst að flugvöllurinn fari ekki úr Vatnsmýri á næstu árum.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir að enn sé unnið að því að finna betri stað fyrir innanlandsflug í stað flugvallarins í Vatnsmýri. Þó sé ljóst að flugvöllurinn fari ekki úr Vatnsmýri á næstu árum.
Á opnum fundi Flugmálafélags Íslands um flugvöllinn í Vatnsmýri í gær sagði Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra að ný ríkisstjórn væri einhuga um það að standa vörð um framtíð Reykjavíkurflugvallar á núverandi stað — í Vatnsmýri.
Tólf ár eru frá því ríki og borg gerðu með sér samkomulag um að leitað skuli að nýju flugvallarstæði en að þangað til það fyndist þyrfti að tryggja rekstraröryggi vallarins í Vatnsmýri.
Kristrún segir að stjórnvöld séu enn bundin af samkomulaginu. Leit að betri stað fyrir völlinn hafi ekki verið hætt.
„Það hefur verið vinna í gangi. Það komu upp tillögur til að mynda um Hvassahraun og það er ákveðin óvissa með það núna út af stöðunni á Reykjanesinu. Það er ekkert ólíklegt að það muni koma upp kostir í framtíðinni,“ sagði Kristrún að loknum ríkisstjórnarfundi.
Hún segir alveg ljóst að flugvöllurinn í Vatnsmýri sé ekki á förum á þessu kjörtímabili enda taki langan tíma að byggja upp nýjan völl.
„Á meðan það er staðan þurfum við auðvitað að tryggja rekstraröryggi flugvallarins. Þetta eru mikilvægar almenningssamgöngur, sérstaklega fyrir landsbyggðina“
Heimild: Ruv.is