Íbúðarkaupandi sem keypti sér nýja íbúð í blokk í Hafnarfirði nýverið, og staðgreiddi hana að mestu, fékk á dögunum bréf frá Landsbankanum þar sem viðkomandi er tilgreindur sem ábyrgðarmaður að skuldum byggingaraðila hússins gagnvart Landsbankanum að upphæð 2,4 milljarða króna.
„Yfirlit þetta sýnir ábyrgðir þínar á skuldum annarra við Landsbankann hf. þann 15. janúar 2025. Yfirlitið er sent á grundvelli laga nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn. Samkvæmt lögunum teljast þeir ábyrgðarmenn sem hafa tekið á sig persónulegar ábyrgðir eða hafa veðsett eign sína til tryggingar á efndum lántaka (veðsalar), enda sé ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans,“ segir í bréfinu sem ViðskiptaMogginn hefur undir höndum.
ViðskiptaMogginn leitaði skýringa hjá Landsbankanum og segir Rúnar Pálmason upplýsingafulltrúi í skriflegu svari að málið snúist væntanlega um að viðkomandi hafi keypt íbúð af verktakanum sem tekið hafi lán fyrir framkvæmdum hjá Landsbankanum. „Á bankanum hvílir sú lagaskylda að senda bréf til þeirra sem eru að einhverju leyti í ábyrgðum fyrir skuldum um áramót, sbr. lög um ábyrgðarmenn frá 2009,“ segir í svarinu en gögnin eru sótt með sjálfvirkum hætti í kerfi bankans.
Ekki persónulega
Þá segir í svarinu að eins og fram komi í bréfinu kunni að birtast á yfirlitinu skuldir sem viðtakandi hefur ekki persónulega skuldbundið sig til að greiða. „Þá kemur fram í bréfinu að þegar svo háttar til að fleiri en einn aðili er eigandi fasteignar, bifreiðar eða annarra eigna og einhver eigendanna hefur veðsett eignarhluta sinn í sameigninni, birtist skuldin á yfirliti meðeigenda.“
Í tilvikum sem þessu er hugsanlegt að kaupandi íbúðarinnar eigi eftir að greiða hluta kaupverðs eða í það minnsta að afsal hafi ekki verið gefið út. „Við sölu á nýbyggingum er algengt að síðustu greiðslu sé haldið eftir þar til lokaúttekt byggingarfulltrúa hefur farið fram. Á meðan svo er, þá er byggingafélagið skráð sem meðeigandi að íbúðum sem það hefur selt en ekki er búið að gefa út afsal vegna.
Að lokaúttekt lokinni og gegn greiðslu afsalsgreiðslu er gefið út afsal (af hálfu byggingafélags sem seljanda) og samhliða er veðböndum aflétt. Hefði þetta afsal verið gefið út fyrir áramót, þá hefði ábyrgðin ekki komið fram á yfirlitinu.“
Einnig segir að ábyrgð íbúðarkaupanda í tilfellum sem þessum sé eingöngu bundin við þann hluta kaupverðsins sem er ógreiddur (t.d. síðasta greiðsla, að loknu afsali). Ábyrgðin nái ekki lengra og mögulegt gjaldþrot byggingafélags myndi engin áhrif hafa á það.
Endurskoða og útskýra
Að lokum segir bankinn að ábendingin frá þessum viðtakanda verði til þess að orðalag í bréfinu verði endurskoðað og útskýrt verði betur um hvað málið snýst.
Heimild: Mbl.is