Home Fréttir Í fréttum Gatnagerðargjöld allt að tvöfaldast

Gatnagerðargjöld allt að tvöfaldast

53
0
Hús í byggingu. Mynd úr safni. RÚV

Til stendur að hækka gatnagerðargjöld í Reykjavík. Þau hafa ekki staðið undir kostnaði. Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir gjöldin allt að tvöfaldast og leggjast þungt á húsbyggjendur.

<>

Gatnagerðargjöld hækka um allt að helming í Reykjavíkurborg, samkvæmt tillögu sem verður tekin fyrir í borgarstjórn á þriðjudag.

Borgarráð vísaði í síðustu viku tillögu um breytingar á gjaldskrá vegna gatnagerðar til borgarstjórnar. Samkvæmt henni hækka gatnagerðargjöld fjölbýlishúsa úr 5,4 í tíu prósent og parhúsa og raðhúsa úr rúmum ellefu prósentum í fimmtán. Gjaldtaka á síðarnefndu húsnæðisflokkunum verður þá í takt við það hæsta sem nú gerist en fjölbýlishúsin lægri en þar sem gjöldin eru hæst.

Í bókun meirihlutans segir að gjöldin standi ekki undir kostnaði við gatnagerð þrátt fyrir hækkunina.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
RÚV – Ragnar Visage

Hækkun sem bætist við innviðagjöld
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að þetta sé mjög mikil hækkun.

„Þetta er í rauninni viðbótarskattur á húsbyggjendur. Húsbyggjendur eru nú þegar að borga afar há innviðagjöld sem er ekki verið að rukka í mörgum öðrum sveitarfélögum. Með þessu er enn verið að hækka byggingarkostnað sem er líklegt að hafi neikvæð áhrif á húsnæðiskostnað í borginni.“

Borgarstjórn fjallar um tillöguna á þriðjudag.
RÚV – Ragnar Visage

Kjartan gefur lítið fyrir rök meirihlutans um að gatnagerðargjöld hafi verið lægri en í öðrum sveitarfélögum og að þau standi hvorki nú né eftir hækkun undir kostnaði við gatnagerð. Hann segir ekkert í lögum um að gatnagerðargjald verði að standa undir kostnaði við gatnagerð, aðeins að þau skuli nota til slíkra verka. Auk þess leggi borgin há innviðagjöld á húsnæði. Hann segir að eftir breytingu geti gatnagerðagjöldin á hundrað fermetra íbúð verið á fjórðu milljón og innviðagjöldin sex milljónir.

„Með hækkuninni þá nálgast skattlagningin á hverja íbúð í fjölbýlishúsi sem er svona stór tíu milljónir.“

Borgarstjórn fjallar um tillöguna á þriðjudag.

Á fundi borgarstjórnar.
RÚV – Ragnar Visage

Tryggja verði tekjur
Á borgarráðsfundi á fimmtudag bókuðu fulltrúar meirihlutans að mikilvægt væri að gatnagerðargjöld standi undir kostnaði við uppbyggingu og viðhald nauðsynlegra innviða.

„Of mörg sveitarfélög, bæði hérlendis og erlendis, hafa búið sér til ósjálfbært sjálfskaparvíti með því að byggja of mikið, oft of dreift, án þess að tryggja sér nægar tekjur til að standa undir þeim kostnaði sem fellur til vegna innviða.“

Meirihlutafulltrúarnir sögðu nauðsynlegt að álagning gatnagerðargjalda drægi ekki úr hvötum til að byggja en tryggði um leið nauðsynlega innviði.

Eðlileg breyting
Borgarfulltrúi Flokks fólksins sagði að breytingin væri í raun eðlileg.

„Í samanburði gatnagerðargjalda á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu virðist Reykjavíkurborg vera á svipuðum stað og önnur sveitarfélög.“

Heimild: Ruv.is