Home Fréttir Í fréttum „Glórulaust að hafa svona iðnaðarhúsnæði inni í miðri íbúabyggð“

„Glórulaust að hafa svona iðnaðarhúsnæði inni í miðri íbúabyggð“

49
0
Kristján Hálfdánarson ræðir við Einar Þorsteinsson á blaðamannafundi í íbúð Kristjáns við Árskóga. Þar var Einari færður undirskriftalistinn. Aðsend mynd – Anton Brink

Rúmlega 2800 skrifuðu undir lista þar sem þess er krafist að framkvæmdir við græna vöruhúsið við Álfabakka verði stöðvaðar. Undirskriftalistinn var færður borgarstjóra í dag. Íbúar í grennd vöruhússins vilja að því verði fundinn nýr staður.

Alls skrifuðu 2830 undir undirskriftalista með yfirskriftinni „Stöðvum framkvæmdir við Álfabakka 2A-2D“ á Ísland.is. Kristján Hálfdánarson, formaður húsfélagsins við Árskóga 7, hóf söfnunina en vöruhúsið við Álfabakka byrgir sýn hluta íbúa fjölbýlishússins við Árskóga.

Hann segir íbúa helst vilja að húsið verði fjarlægt og að því verði fundinn staður annars staðar. Þó það sé ólíkleg niðurstaða er hann bjartsýnn á að eitthvað verði gert.

Íbúar við Árskóga 7 ásamt borgarstjóra við afhendingu undirskriftalistans.
Aðsend mynd / Anton Brink

Gerir ráð fyrir að kostnaður breytinga lendi á skattgreiðendum
„Ég hef sagt það áður, og ég ræddi það til dæmis við borgarstjóra, að maður verður að setja markið hátt ef maður vill fá eitthvað út úr hlutunum. Þess vegna ákváðum við það að setja markið á að þetta hús hyrfi. En svo verður maður bara að sjá til hvað við fáum. Það kemur ekki alveg einn, tveir og þrír það gera sér allir grein fyrir því,“ segir Kristján.

Kristján segir meðal annars hægt að færa vöruhúsið á hinn enda lóðarinnar. Kjötvinnsluna vill hann aftur á móti færða annað. „Vegna þess að það er bara glórulaust að hafa svona iðnaðarhúsnæði inni í miðri íbúabyggð að okkar mati,“ segir hann.

„Þetta kemur til með að kosta mikla peninga og ég sé enga aðra leið en að skattgreiðendur sitji í súpunni með það,“ segir Kristján.

Borgin þarf að vinna í samvinnu við eigendur vöruhússins
Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir borgaryfirvöld vilja gera allt sem þau geta til að koma til móts við íbúa.

„Það er bara skýr krafa frá íbúum að við reynum að laga þessa stöðu og ég tek það bara mjög alvarlega. Það er mjög gott að koma hingað í kaffi hjá honum Kristjáni og ræða við stjórn húsfélagsins og fá beint frá þeim hvernig þeim líður hér,“ segir Einar.

Einar segir ekki hægt að breyta húsinu nema í samvinnu við eigendur: „En þeir eru að byggja, skilst mér, í samræmi við sínar heimildir þannig að við þurfum að ná við þá samkomulagi um að gera breytingar á þessu húsi.“

Líkt og fréttastofa hefur fjallað um þá hafa fulltrúar borgarinnar rætt við eigendur hússins um tillögur að útfærslum á útlitsbreytingum. Um þær ríkir trúnaður.

Heimild: Ruv.is