Home Fréttir Í fréttum Trúnaður ríkir um tillögur eigenda vöruhússins við Álfabakka

Trúnaður ríkir um tillögur eigenda vöruhússins við Álfabakka

33
0
Vöruhúsið við Álfabakka sem var reist alveg upp við íbúablokk sem stendur við Árskóga. RÚV – Víðir Hólm Ólafsson

Borgin hefur átt fundi með eigendum vöruhússins við Álfabakka til að ræða hvað hægt sé að gera. Sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar segir trúnað ríkja um þær tillögur sem nefndar hafa verið á fundunum.

Fulltrúar frá Reykjavíkurborg áttu fund í síðustu viku með eigendum græna vöruhússins við Álfabakka 2.

Að sögn Ólafar Örvarsdóttur, sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar, voru alls kyns hugmyndir um útfærslur á útliti hússins ræddar á fundinum. Hún vildi ekki ræða þær tillögur frekar við fréttastofu, um þær þyrfti að ríkja trúnaður.

Ólöf gat heldur ekki sagt til um hvort húsinu verði breytt eða ekki. Að hennar sögn er næsti vinnufundur með eigendum hússins ráðgerður um miðjan febrúar.

Borgin fundaði fyrst með forsvarsmönnum Álfabakka 2 ehf. í desember. Eftir þann fund fékk hönnuður byggingarinnar það verkefni að skoða hvað hægt væri að gera í stöðunni. Honum var falið að leggja fram tillögur að breytingum samkvæmt kröfum borgarinnar.

Fyrr í mánuðinum sagði Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, vona að brugðist verði við kröfum íbúa. „Ég veit ekki hvort það sé raunhæft að ganga alla leið og rífa niður bygginguna eða hvernig sem það er. Það verður bara að koma í ljós í þessum samtölum. Sem er verið að taka,“ sagði Dóra Björt í samtali við fréttastofu.

Heimild: Ruv.is