Landsvirkjun hefur áfrýjað dómi héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar var fellt úr gildi. Óskað er eftir að málið fari beint til Hæstaréttar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Landsvirkjun.
Landsvirkjun hefur áfrýjað dómi héraðsdóms, þar sem virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar var fellt úr gildi. Ástæða áfrýjunnar er sögð sú að dómurinn sé í meginatriðum rangur. Landsvirkjun óskar eftir að málið fari beint fyrir Hæstarétt.
Í yfirlýsingu frá Landsvirkjun kemur fram að lögum um stjórn vatnamála sé ekki ætlað að standa í vegi fyrir nýjum vatnsaflsvirkjunum á Íslandi. Tilgangur laganna hafi verið að innleiða vatnatilskipun án efnislegra breytinga.
Jafnframt er bent á að tilgangur laga um stjórn vatnamála sé ekki að koma í veg fyrir allar framkvæmdir sem hafi áhrif á svokallað vatnshlot, það vatn sem er í ám og vötnum.
Alþingi samþykkti þingsályktun, sem færði Hvammsvirkjun úr biðflokki í orkunýtingarflokk rammaáætlunar, árið 2015. Að mati Landsvirkjunar er ólíkegt að ályktunin hefði náð fram að ganga ef ætlunin hefði verið að koma í veg fyrir að virkjunin yrði að veruleika.
Töf framkvæmda reynist Landsvirkjun dýr
Í yfirlýsingunni segir að erfitt sé að leggja mat á þann kostnað sem hlýst af frestun framkvæmda, vegna dóms héraðsdóms um afturköllun á virkjunarleyfi. Frestun á útboðum, meðal annars vegna veglagninga og undirbúnings vinnubúða, séu kostnaðarsöm.
Landsvirkjun styður áætlun umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um að draga úr skaðanum með lagasetningu.
Héraðsdómur afturkallaði virkjunarleyfið
Dómur héraðsdóms féll í síðustu viku. Þar segir að undanþáguveiting Umhverfisstofnunar, varðandi breytingu á vatnshloti Þjórsár, hafi ekki samræmst íslenskum reglugerðum, þó hún hafi verið byggð á Evróputilskipun.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði þá að dómurinn kæmi sér á óvart.
„Svona okkar fyrstu viðbrögð eru þau að hann kemur okkar á óvart og skapar ákveðin vandræði við orkuöflun þarna í neðri Þjórsá.“
Hörður sagði að dómurinn hefði þau áhrif að framkvæmdum við Hvammsvirkjun myndi seinka. Að hans mati hefði það neikvæðar afleiðingar á stöðu orkumála en hann sagði mikla þörf fyrir aukna orku í samfélaginu.
Heimild: Ruv.is