Home Fréttir Í fréttum Vill ljúka við gerð ofanflóðavarna helst fyrir 2030

Vill ljúka við gerð ofanflóðavarna helst fyrir 2030

31
0
Jóhann Páll Jóhannsson er umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. RÚV – Ragnar Visage

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra segir mikilvægt að ljúka uppbyggingu ofanflóðavarna fyrir 2030. Allt stefnir í að þær verði ekki tilbúnar fyrr en í fyrsta lagi þremur árum síðar. Tilefni sé að skoða hvort setja eigi aukna fjármuni í verkefnið.

<>

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið skoðar nú hvernig betur sé hægt að innheimta gjöld í ofanflóðasjóð. Nýr ráðherra segir mikilvægt að ljúka uppbyggingu ofanflóðavarna fyrir 2030. Eins og staðan er núna stefnir ekki í að þær verði tilbúnar fyrr en í fyrsta lagi 2033. 30 ár eru í dag frá því að snjóflóð féll á Súðavík með þeim afleiðingum að 14 manns létust, þar af átta börn.

„Mannslíf verða ekki metin til fjár“

Ofanflóðanefnd var sett á laggirnar 1996 til að tryggja varanlegar snjóflóðavarnir með uppkaupum fasteigna eða byggingu varnarmannvirkja. Verkinu átti að ljúka 2010 en er aðeins hálfnað.

Síðasta áratug hefur sjóðurinn einungis fengið upphæð sem samsvarar 60 prósentum af innheimtu ofanflóðagjalds. Fimmtán bæir eru á hættusvæði vegna ofanflóða. Í sex þeirra hafa fullnægjandi varnir verið reistar en bæta þarf um betur í níu bæjum, meðal annars á Flateyri, Patreksfirði og Seyðisfirði, þar sem mannskæð flóð hafa fallið og skriður sem ollu miklu tjóni.

Jóhann Páll Jóhannsson, sem er nýtekinn við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, sagði í Kastljósi að ráðuneytið sé að skoða hvernig sé hægt að tryggja að gjöldin sem eigi að fara í ofanflóðasjóð rati þangað.

„Það er mikið í húfi og mannslíf verða ekki metin til fjár.“

Á síðari árum segir Jóhann Páll að fallið hafi verið frá því í ríkisfjármálum almennt að vera með markaða tekjustofna, þar sem tilteknar tekjur séu markaðar sérstökum verkefnum.

„Þegar um er að ræða svona verkefni er ekki skrítið að fólk klóri sér í kollinum yfir því að gjöldin skili sér ekki í þessi tilteknu verkefni. Það sem við erum að skoða meðal annars í ráðuneytinu er hvernig sé hægt að tryggja betri innheimtu þessara gjalda.“

Óháð innheimtu gjaldanna skipti miklu máli að ná að ljúka uppbyggingu ofanflóðavarna. „Helst fyrir 2030 vegna þess að það er mikið í húfi.“

Skoða hvort auknir fjármunir verði settir í verkefnið

Til þess að geta lokið þessu fyrir 2033 þurfi að setja meiri fjármuni í verkefnið næstu árin. Jóhann Páll segir ríkisstjórnina horfa til þess við gerð fjármálaáætlunar.

„Þá finnst mér eðlilegt að mitt ráðuneyti, í samskiptum við fjármálaráðuneytið, kalli eftir því að það verði skoðað að setja aukna fjármuni í þetta. Ef það er til þess fallið að raunverulega hraða framkvæmdum.“

Óskírleiki og óskilvirkni geti skapast þegar hlutum og hlutverkum sé dreift á ýmsar stofnanir. „Í þessu tilviki sér framkvæmdasýslan um útboð og ferlið þegar kemur að framkvæmdum. Fjárlagaliðurinn liggur hjá ráðuneytinu. Lengst af var það ráðuneytisstjóri Umhverfisráðuneytisins sem fór með formennsku í ofanflóðanefnd.“

Heimild: Ruv.is