Þinglýstum kaupsamningum fækkaði þrjá mánuði í röð í haust og voru tæplega 900 talsins í nóvembermánuði
Færri íbúðir seldust einnig á yfirverði í haust eftir mikinn kaupþrýsting í sumar
Kaupþrýstingur er þó enn mikill á fasteignamarkaði, ef miðað er við fjölda íbúða á sölu
Þinglýstir kaupsamningar voru tæplega 900 talsins í nóvembermánuði, eftir að hafa verið um 950 í október og kringum þúsund mánuðina tvo þar á undan. Umsvif á fasteignamarkaði á haustmánuðum svipa mjög til umsvifa haustið 2023. Fjöldi kaupsamninga í september-, október- og nóvembermánuði 2024 er tæpum 9% fleiri miðað við sömu mánuði ársins 2023 eða sem nemur 232 kaupsamningum.
Kaupsamningum hefur fækkað á haustmánuðum ef miðað er við vor- og sumarmánuði þessa árs, en frá marsmánuði og út júlímánuð voru þinglýstir kaupsamningar að meðaltali 1.178 í hverjum mánuði.
Dregur úr kaupþrýstingi þriðja mánuðinn í röð
Samhliða minni umsvifum hefur dregið úr kaupþrýstingi en þeim íbúðum sem seldust á yfirverði fækkaði þriðja mánuðinn í röð í nóvember eftir að hafa náð hámarki í ágústmánuði. Alls seldust 15,5 prósent íbúða yfir ásettu verði í nóvember. Hlutfallið var hærra eða tæp 17 prósent á höfuðborgarsvæðinu en í nágrenni þess og annars staðar á landinu var hlutfallið í kringum 12 prósent. Í sögulegu samhengi er hlutfallið tiltölulega hátt, en í kringum 10 prósent íbúða seldust á yfirverði árið 2019 þegar framboð íbúða var álíka og nú.
Sé horft á hlutfallið eftir sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og á meðaltal september-, október- og nóvembermánaðar var hlutfallið hæst í Reykjavík eða rúm 22 prósent. Hlutfallið er á bilinu 15 til 18 prósent í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði sé horft til þróunar fyrrnefndra mánaða.
Í þessu samhengi er þó brýnt að hafa hugfast að algengara er að eldri íbúðir seljist á yfirverði samanborið við nýjar. Frá janúar til og með nóvember á síðasta ári seldust 19 prósent eldri íbúða höfuðborgarsvæðinu yfir ásettu verði en hlutfallið var 13 prósent meðal nýrra íbúða.
Meirihluti nýrra íbúða seldust á ásettu verði í fyrra en verð á eldri íbúðum er mun sveigjanlegra en tvær af hverjum þremur eldri íbúðum sem gengu kaupum og sölum árið 2024 fóru á undir ásettu verði.
Allt að þriðjungsmunur á fermetraverði á höfuðborgarsvæðinu í samanburði við svæðin í nágrenni þess
Samkvæmt kaupsamningunum nóvembermánaðar var meðalverð á fermetra hæst á höfuðborgarsvæðinu, eða um 808 þúsund krónur. Næsthæsta fermetraverðið var á Suðurlandi, þar sem það var tæplega fjórðungi lægra og nam 620 þúsund krónum á sama tímabili.
Líkt og sést á samantektinni úr kaupsamningum nóvembermánaðar 2024 var meðalfermetraverðið á Suðurnesjum, Vesturlandi og Norðausturlandi allt að þriðjungi lægra en á höfuðborgarsvæðinu. Á Austurlandi, Norðvesturlandi og Vestfjörðum er fermetraverðið um helmingi lægra en á höfuðborgarsvæðinu.
Þó ber að varast að draga of miklar ályktanir af meðalfermetraverði einu og sér en sem dæmi er mun hærra hlutfall sérbýlis utan höfuðborgarsvæðisins sem skýrir að einhverju leyti þennan mun þar sem almennt er hærra fermetraverð á minni eignum en stærri. Eins er um að ræða meðaltöl á einstaka landshlutum en vitað er að innbyrðis á hverju svæði fyrir sig er mikill breytileiki í meðalfermetraverði.
Heimild: HMS.is