Home Fréttir Í fréttum Telur stjórnsýsluúttekt litlu breyta fyrir í­búa og í­hugar að flytja

Telur stjórnsýsluúttekt litlu breyta fyrir í­búa og í­hugar að flytja

16
0
Ingibjörg Mjöll Pétursdóttir íbúi í Árskógum íhugar að flytja vegna vöruskemmunnar sem hefur risið við fjölbýlishúsið. vísir

Íbúi í Árskógum íhugar að flytja úr húsnæðinu vegna nálægðar við vöruskemmuna í Álfabakka.Hún telur stjórnsýsluúttekt á málinu ekki breyta neinu fyrir íbúa. Tæplega tvö þúsund manns krefjast þess að framkvæmdir við skemmuna verði stöðvaðar.

<>

Borgarstjórn ákvað í fyrradag á fundi sínum að fela innri endurskoðun borgarinnar að gera stjórnsýsluúttekt á byggingu vöruskemmu við Álfabakka 2 í Breiðholti. Byggingin hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að skyggja á útsýni íbúa í Árskógum, þá stendur fjölbýlishúsið þétt upp við vöruskemmuna.

Byggingaraðilar hafa frest til mánaðarmóta

Einar Þorsteinsson borgarstjóri sagði í fréttum Stöðvar 2 í í fyrradag, mikilvægt að gera stjórnsýsluúttekt á málinu til komast að því hvað fór úrskeiðis og til að læra af því.

„Við fórum fram á að byggingaraðilar hússins skili okkur tillögum fyrir lok mánaðarins um breytingar á húsinu. Stjórnsýsluúttekt er eitthvað sem tekur aðeins lengri tíma. Þar verður kannað hver ber ábyrgð á ferlinu en úttektin mun líka  gefa okkur vísbendingar um hvernig við getum lært af þessu,“ sagði Einar.

Tvö þúsund undirskriftir á nokkrum dögum

Í vikunni var stofnað til undirskriftarlista á Island.is þar sem farið er fram á að framkvæmdir við Álfabakka verði stöðvaðar. Í gærmorgun höfðu tæplega tvö þúsund manns skrifað undir.

Íhuga að flytja

Ingibjörg Mjöll Pétursdóttir býr í Árskógum, fjölbýlishúsinu við vöruskemmuna. Hún segir málið í heild sorglegt.

„Ég er döpur yfir þessu. Ég hefði aldrei nokkru tíma keypt húsnæði hér hefði ég vitað að þetta væri framtíðin. Að ég hefði bara þennan græna vegg sem útsýni í stað kvöldsólarinnar.

Ingibjörg býr á jarðhæð í Árskógum og segir að í ofanálag hafi vöruskemman þau áhrif að minni dagsbirta berist inn í íbúðina en áður.

„Ég og konan mín höfum verið að hugsa  hvort við eigum að  leggja á okkur að finna okkur annað húsnæði og flytja. Það var ekki alveg það sem við hugsum okkur þegar við fluttum inn árið 2021, að við þyrftum aftur á gamalsaldri að flytja búferlum,“ segir hún.

Telur stjórnsýsluúttekt litlu breyta

Ingibjörg segir stjórnsýsluúttekt ágæta en hefði viljað haga því máli á annan máta.

„Það er fínasta mál að slík úttekt fari fram en ég sé ekki að það muni virka fyrir okkur. Mér sýnist svona stjórnsýsluákvörðun vera enn eitt dæmið um hvernig á að þagga þetta mál niður og sjá hvort við gefumst upp. Ég hefði frekar viljað að það væru utanaðkomandi sérfræðingar sem gerðu úttekt á þessu frekar en gera svona stjórnsýsluúttekt sem þýðir að sama fólkið er að fara að skoða sjálft sig,“ segir Ingibjörg.

Heimild: Visir.is