Ráðgjafi sveitarfélaga og Vegagerðarinnar segir sveitarfélög geti sparað milljónir með því að nota LED ljós í götulýsingu. Mörg sveitarfélög vinna að því að skipta út götulýsingunni.
„Það sem gerist eins og með götulýsinguna að ef þú skiptir yfir í LED þá spara þú orku, að meðaltali 70%,“ segir Guðjón L. Sigurðsson, stofnandi Liska ehf. og ráðgjafi sveitarfélaga og Vegagerðarinnar, í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í gærmorgun.
Hann segir það margborga sig fyrir sveitarfélög að skipta yfir í LED ljósgjafa í götulýsingu. Ljósgæðin og birtan sé sú sama og jafnvel betri.
„Eins og ef við tökum til dæmis Reykjavík sem ég hef unnið mest fyrir,“ segir Guðjón. „Þeir eiga eftir að endurnýja um einn þriðja af gatnalýsingunni og ef þeir gerðu það gætu þeir sparað hundrað milljónir á ári.“
Guðjón telur að ef að öll sveitarfélög á landinu myndu skipta yfir í LED gatnalýsingu væri hægt að spara um 700 milljónir á ári. Með hækkandi raforkuverði gæti sparnaðurinn verið enn meiri.
„Það margborgar sig. Þegar við vorum að byrja á þessu fyrir sex, sjö árum þá var endurgreiðslutíminn í kringum fimm til sjö ár. Núna með hækkandi raforkuverði og svona stöðnun í verði á lömpum þá er þessi tími kominn í kringum tvö til fjögur ár,“ segir Guðjón.
„Svona lampar eiga að endast í tuttugu til 25 ár.“
Sveitarfélögin klára mishratt
Sveitarfélögin leggi mismikla áherslu á að klára skiptin. Reykjavíkurborg hefur skipt út um þriðjung ljósgjafanna.
Þá stefna Akranesbær, Kópavogsbær og Seltjarnarnesbær að klára breytingarnar á þessu ári. Garðabær stefnir á að klára á næstu þremur árum.
Mosfellsbær er á svipuðu róli og Reykjavíkurborg, hefur klárað að skipta út um þriðjung. Áherslan núna sé hins vegar að taka alla hvítasilfurslampa og skipta þeim út. Það séu þrjú til fjögur ár að verkefnið klárast.
Búið sé að skipta út gatnalýsingunni á Reykjanesbrautinni en breytingin hefur ekki átt sér stað á stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu.
„Það eru flestir á fullu,“ segir Guðjón.
Á heimasíðu Reykjavíkurborgar segir að LED ljósgjafar séu ekki perur heldur glóandi rafrás eða hálfleiðari.
Heimild: Visir.is