Búseti fór þess á leit við byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar um miðjan nóvember að framkvæmdir við vöruhúsið sem nú rís við Álfabakka yrðu stöðvaðar. Þetta kemur fram í gögnum sem Spegillinn fékk afhent í dag.
Umhverfis-og skipulagsráð kom saman til fundar í morgun þar sem meðal annars var rætt um vöruhúsið sem rís nú fjórtán metrum frá fjölbýlishúsi Búseta við Árskóga 7.
Sá enga ástæðu til að stöðva framkvæmdir
Vöruhúsið byrgir íbúum fjölbýlishússins sýn og bæði formaður umhverfis-og skipulagsráðs og borgarstjóri hafa sagt bygginguna hafa komið sér í opna skjöldu.
Búseti sendi hins vegar bréf á byggingarfulltrúa borgarinnar í nóvember þar sem þess var krafist að framkvæmdir við húsið yrðu stöðvaðar.
Í bréfinu, sem Spegillinn fékk afhent í dag frá borginni, kom meðal annars fram að á lóðinni væri verið að reisa fjögurra hæða hús, tólf metra háa byggingu, sem ætti sér enga stoð í útgefnu byggingarleyfi eða svörum skipulagsfulltrúa við fyrirspurn frá áhyggjufullum hjónum sem óttuðust að birtan yrði tekin frá þeim ef svona hátt hús myndi rísa á reitnum. Verkefnisstjóri hjá skipulagsfulltrúa sefaði áhyggjur hjónanna og taldi sig nánast geta fullyrt að slíkt myndi ekki gerast.
Byggingarfulltrúi svaraði erindi Búseta 20 dögum seinna eða 2. desember – sagði útgefið byggingarleyfi vera í samræmi við byggingarreglugerð og gildandi deiliskipulag og því væri engin ástæða til að stöðva framkvæmdir.
Telur skipulags-og leyfisferlið ekki hafa verið í samræmi við lög
Í gær sendi lögmannsstofan Logos svo bréf fyrir hönd Búseta til borgarstjóra, borgarritara, umhverfis- og skipulagsráðs, skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa þar sem þess var aftur krafist að framkvæmdir við vöruhúsið yrðu stöðvaðar.
Spegillinn hefur bréfið undir höndum. Búseti segir mikilvægt að brugðist verði skjótt við beiðni félagsins, því mikilvægt sé fyrir alla að niðurstaða fáist sem fyrst . Með því að stöðva framkvæmdirnar núna verði hægt að koma í veg fyrir meira tjón heldur en ef þeim yrði leyft að halda áfram.
Í bréfi Búseta eru gerðar margvíslegar athugasemdir við framkvæmdina – og fullyrt að skipulags- og leyfisferlið hafi ekki verið í samræmi við lög.
Bent er á að útfrá skipulagsgögnum og svörum Reykjavíkurborgar hafi verið erfitt fyrir almenning að átta sig á umfangi þeirra byggingar sem nú sé risin. Afstöðumyndir af húsinu hafi verið verulega villandi og í deiluskipulagsuppdrætti frá árinu 2022 hafi hvergi verið gerð grein fyrir salarhæðum, sem Búseti telur afar óvenjulegt.
Þá segir Búseti að þeir sem hafi gert lokabreytingar á teikningum sem lagðar voru fram í umhverfis- og skipulagsráði vegna breytinga á deiliskipulagi í október fyrir tveimur árum séu hvorugir á lista Skipulagsstofnunar yfir þá sem megi gera skipulagsáætlanir eins og gerð sé krafa um.
Segir engan hafa vitað af beiðni Búseta
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, á sæti í umhverfis- og skipulagsráði. Hún segir það algjörlega nýjar fréttir að Búseti hafi viljað stöðva framkvæmdir í nóvember.
Engin hafi heyrt af þessu áður og þetta komi í raun eingöngu fram í nýjasta bréfinu sem lögmenn Búseta sendu á borgina í gær. „Þarna kemur í ljós að framkvæmdirnar koma þeim á óvart og illa við þeirra íbúa. Þarna rís þessi stærðarinnar járnveggur fyrir framan stofugluggann hjá fólki og eðlilega er fólki brugðið og ég held að öllum hjá borginni sé brugðið. Þetta er ljótt og leiðinlegt mál.“
Hildur telur reyndar margt óvenjulegt við þetta mál. „Stóri vendipunkturinn er lóðaúthlutunin í borgarráði í júní 2023 þegar núverandi borgarstjóri var formaður borgarráðs. Þá var lóðin skilgreind sem verslunar-og þjónustulóð,“ segir Hildur. „Í framhaldinu kemur þetta verkefni aldrei inn á borð umhverfis-og skipulagsráðs sem mér þykir óvenjulegt. Við fengum aldrei að sjá teikningar eða myndir sem sýndu samspil við íbúðabyggingar og annað slíkt.“
Hildur segist hafa fengið það staðfest á fundi umhverfis-og skipulagsráðs í morgun að ástæðan fyrir þessu verklagi hafi verið sú að skrifstofa borgarstjóra hafi tekið verkefnið til sín. „Það að borgarstjóri haldi því fram núna að hann hafi ekki vitað af þessu er af og frá.“ Starfsmenn á skrifstofu borgarstjóra hafi til að mynda skrifað um þessa uppbyggingu á vef Linkedln og merkt borgarstjóra.
Segir borgarstjóra ekki geta skorast undan ábyrgð
Margt bendir til þess að ef ráðist verði í breytingar, hverjar sem þær verða, muni kostnaðurinn lenda á skattgreiðendum. Ekki sé við uppbyggingaraðila að sakast sem hafi einfaldlega stuðst við hina rúmu skipulagsskilmála á lóðinni – ábyrgðin liggi fyrst og fremst hjá borginni.
Hildur segir málinu ekki lokið og borgarstjóri geti ekki skorast undan ábyrgð. „Annað hvort er hann fylgjast illa með því sem gerist á hans skrifstofu eða hann er ekki að segja rétt og satt frá. Og ég veit ekki hvort mér þykir verra.“ Sjálfstæðisflokkurinn lagði til að fram færi stjórnsýsluúttekt á málinu á fundi borgarstjórnar í gær en þeirri beiðni var hafnað. Hildur reiknar með að sú beiðni verði afgreidd eftir áramót. „Við munum halda áfram að tala fyrir því að það verði farið ofan í saumana á þessu máli.“
Heimild: Ruv.is