Ráðgjafarfyrirtækið Verkþekking var nýlega stofnað en félagið sérhæfir sig í almennri stýriverktöku og byggingar- og framkvæmdaráðgjöf.
Verkþekking ehf. er nýtt félag á byggingarmarkaði sem sérhæfir sig í allri almennri stýriverktöku og byggingar- og framkvæmdaráðgjöf. Það var stofnað í september og tekur meðal annars að sér byggingarstjórn, kostnaðareftirlit og gæða- og öryggiseftirlit.
Garðar Atli Jóhannsson, eigandi fyrirtækisins, þekkir vel til starfseminnar en hann hefur unnið í byggingargeiranum á Íslandi í yfir 20 ár og var tæplega fimm ár í Danmörku.
„Ég sá tækifæri til að koma inn með óháða skoðun og gæðaeftirlit fyrir verkkaupa sem eru að fá þriðja aðila til að byggja fyrir sig. Ég sé þá um öryggismálin, kostnaðareftirlit og öll gæðamál til að tryggja að verkkaupandi fái í raun það sem hann er að biðja um.“
Fyrirtækið var stofnað í september og segist Garðar þegar vera kominn með marga viðskiptavini. Hann hefur þá meðal annars verið að sinna ástandsskoðun fyrir fasteignasölur og þjónustar stóra verktaka með ýmiss konar ráðgjöf.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaði vikunnar.
Heimild: VB.is