Home Fréttir Í fréttum Vest­fjarða­vegur (60) um Dynj­andis­heiði, 3. áfangi, boðinn út

Vest­fjarða­vegur (60) um Dynj­andis­heiði, 3. áfangi, boðinn út

45
0
Tölvugerð mynd af fyrirhuguðum framkvæmdum. Mynd: Vegagerðin

Vegagerðin hefur boðið út nýbyggingu Vestfjarðavegar á um 7,2 km kafla og um 0,8 km kafla á Dynjandavegi. Vegurinn er að mestu leyti byggður í nýju vegstæði.

<>

Innifalið er gerð keðjunarplans og áningarstaðar. Um er að ræða þriðja og síðasta hluta af endurbyggingu nýs Vestfjarðavegar yfir Dynjandisheiði. Verkinu skal að fullu lokið 30. september 2026.

Útboðsgögn eru aðgengileg og verða afhent í rafræna útboðskerfinu TendSign frá og með mánudeginum 16. desember 2024 og skal tilboðum skilað rafrænt í því útboðskerfi fyrir kl. 14:00 þriðjudaginn 28. janúar 2025.

Ekki verða haldnir sérstakir opnunarfundir en eftir lok tilboðsfrests verður bjóðendum tilkynnt um nöfn bjóðenda í útboðinu og verðtilboð. Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.

Tölvugerð mynd af fyrirhuguðum framkvæmdum. Mynd: Vegagerðin

Um fyrsta og annan áfanga:

Í 1. áfanga verksins var byggður upp 7,7 km kafli við Þverdalsá og einnig um 4,3 km kafli fyrir Meðalnes. Þær framkvæmdir stóðu yfir frá 2020-2022. Þá bættist einnig við um 650 m kafli á Bíldudalsvegi. Auk þess var um 1 km kafli frá Pennu niður að Flókalundi lagfærður.

Í 2. áfanga verksins fólst nýbygging Vestfjarðavegar á um 12,6 km löngum kafla. Sú framkvæmd nær frá Norðdalsá, norðan Bíldudalsgatnamóta, og liggur um hæsta hluta Dynjandisheiðar og norður fyrir sýslumörk. Vegurinn er að mestu leyti byggður í nýju vegstæði en að hluta til í núverandi vegstæði. Inni í því verki var einnig gerð námuvegar að námu í Trölladal og gerð áningarstaðar. Verklok 2. áfanga voru fyrr á þessu ári.

Nánari upplýsingar um útboðið má finna hér.

Heimild: Vegagerðin