Home Fréttir Í fréttum Hvassahraun skoðað undir alþjóðaflugvöll

Hvassahraun skoðað undir alþjóðaflugvöll

216
0
Hvassahraun

Nýr flugvöllur í Hvassahrauni, sem myndi þjóna bæði millilanda- og innanlandsflugi, er nú til ítarlegrar skoðunar á vegum Rögnunefndar. Verið er að kanna hvort þetta sé hagstæðari kostur heldur en að leggja í miklar fjárfestingar í hraðlest og stækkun Keflavíkurflugvallar. Þessi lausn gæti jafnframt höggvið á hnútinn í Vatnsmýri.

<>

Hvassahraun í útjaðri Hafnarfjarðar hefur af og til verið nefnt undir innanlandsflugvöll en mætt þeim mótrökum að það tæki því ekki að gera nýjan flugvöll svo nálægt Keflavík. Innan Rögnunefndar er nú horft á Hvassahraun í nýju ljósi, meðal annars vegna áforma, sem Isavia kynnti nýlega, um tugmilljarða króna framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli með stækkun flugstöðvar, endurnýjun flugbrauta og nýrri flugbraut.

Spurningarnar sem menn vilja fá svarað eru mjög áhugaverðar, eins og þessar: Getur verið að kostnaður við nýjan alþjóðaflugvöll í Hvassahrauni sé jafnvel minni heldur en við hraðlest til Keflavíkur? Og ennfremur: Getur verið að sá kostnaður sem Isavia áformar að leggja í þróun Keflavíkurflugvallar á næsta aldarfjórðungi slagi jafnvel upp í nýjan flugvöll?

Og hví ekki að slá tvær flugur í einu höggi, höggva á hnútinn í Vatnsmýri og fá um leið millilandaflugvöll mun nær mesta þéttbýli landsins, aðeins sex til átta kílómetra frá útjaðri byggðar í Hafnarfirði. Mislæg gatnamót eru til staðar á Reykjanesbraut út í Hvassahraun en þar sýna skiltin 26 kílómetra vegalengd að Leifsstöð og 22 kílómetra inn í miðborg Reykjavíkur.

Menn sjá fyrir sér flugvöll sem gæti byrjað sem innanlandsvöllur með hluta af millilandaflugi en myndi síðan þróast upp í að verða stærri. Hluti flugs til Norðurlanda og Bretlands færi jafnvel strax á nýjan völlinn til að létta álagi af Keflavíkurflugvelli. Hvassahraunsvöllur myndi síðan þróast upp í að verða aðalflugvöllur landsins.

Rögnunefnd er meðal annars að láta gera ítarlegt mat á veðurfari, eins og sviptivindum frá Reykjanesfjallagarði, og jarðfræði Hvassahrauns og hættu á eldvirkni. Fyrstu niðurstöður veðurfarsrannsókna liggja fyrir og benda til að þetta sé ekki slæmur kostur, samkvæmt upplýsingum fréttastofu.

Formaður nefndarinnar, Ragna Árnadóttir, vill ekki tjá sig um starf nefndarinnar að öðru leyti en því að Hvassahraun sé einn af fimm flugvallarkostum til skoðunar. Hinir séu Bessastaðanes, Löngusker, Hólmsheiði og breyttar útfærslur flugvallar í Vatnsmýri. Nefndin hefur frest til 1. júní til að skila niðurstöðum.

Heimild: Vísir.is