Home Fréttir Í fréttum Fljótsdælingar ráðast í að reisa þorp í dalnum

Fljótsdælingar ráðast í að reisa þorp í dalnum

64
0
Skipulagsuppdráttur af fyrirhuguðu þorpi í Fljótsdal. RÚV – Rúnar Snær Reynisson

Stefnt er á að úthluta fyrstu lóðunum í nýju, litlu þorpi í Fljótsdal í byrjun næsta árs. Þorpið rís vegna mikillar eftirspurnar, segir sveitarstjóri Fljótsdalshrepps.

<>

Það er ekki á hverjum degi sem ráðist er í að stofna nýtt þéttbýli. Fljótsdælingar ætla að byggja þorp í dalnum og gætu framkvæmdir hafist næsta sumar. Sveitarstjórinn segir þorpið nauðsynlegt enda mikil þörf fyrir íbúðalóðir.

Fljótsdalur er í tæplega hálftíma akstursfjarlægð frá Egilsstöðum. Stæðið fyrir þorpið er norðanmegin á jörð sem heitir Hamborg og viðbúið að þorpið beri sama nafn.

Fljótsdalshreppur telur um hundrað íbúa en stendur vel fjárhagslega. Fjárfesta á í hönnun og grunninnviðum þorpsins fyrir 175 milljónir á næsta ári.

Íbúar geta verið með hesta og hænur
„Þetta er þorp með líklega 25 íbúðum. Og þarna mega menn vera með hesta og hænur. Við stefnum á að ljúka skipulaginu núna á næstu vikum og ættum því að fara getið að auglýsa lóðir fljótlega upp úr áramótum,“ segir Helgi Gíslason, sveitarstjóri í Fljótsdal.

Hægt verður að stækka þorpið síðar upp á næstu hjalla. Lóðirnar eru bæði hefðbundnir húsagarðar og svo stærri reitir fyrir þá sem vilja vera með hesthús eða útiræktun. Leggja þarf götur, fráveitu, rafmagn og fleira.

„Það er náttúrlega lykilatriði að hafa vatn og við erum búnir að finna það. Við fundum góða vatnslind sem að dugir fyrir þetta þorp fullbyggt og miklu meira en það. Og það er nú kannski lykilatriði að menn hafi vatn að drekka,“ segir Helgi.

Segir lóða- og húsnæðisskort há vinnustöðum
En það þarf líka fólk til að drekka vatnið og Helgi er í engum vafa um að þorpið byggist.

„Það er nú bara einfaldlega út af eftirspurn. Það er óskað eftir þessu og einnig háir þetta orðið nokkrum vinnustöðum hérna hjá okkur að það sé ekki hægt að bjóða fram lóðir handa fólki sem hér starfar. Þetta verður íbúðabyggð en alla vega fyrst um sinn verður ekki boðið upp á þjónustu eins og skóla og slíkt,“ segir Helgi Gíslason, sveitarstjóri í Fljótsdal.

Heimild: Ruv.is