Lokaáfanginn í uppbyggingu Vestfjarðavegar um Dynjandisheiði verður boðinn út +i dag, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar. Til stóð að bjóða verkið út mun fyrr og sökuðu talsmenn Vestfirðinga stjórnvöld um svik fyrr á árinu þegar því var slegið á frest.
Greint var frá ákvörðun um útboðið í fréttum Stöðvar 2. Auglýstur verður liðlega sjö kílómetra kafli sem liggur úr Dynjandisvogi og upp á háheiðina. Ennfremur eins kílómetra afleggjari að fossinum Dynjanda.
Þetta verk varð eitt af fórnarlömbum útboðsstopps allra stærri verka hjá Vegagerðinni, sem meira og minna hefur staðið yfir í fimmtán mánuði. Hvorki Vegagerðin né innviðaráðuneytið hafa útskýrt þetta útboðshlé.
Úr röðum stjórnarþingmanna á nýliðnu kjörtímabili hefur það þó einkum verið skýrt með því að mæta hafi þurft stórfelldum umframútgjöldum til Hornafjarðarfljóts sem Vegagerðin stofnaði til án fjárheimilda. Í pistli á facebook fyrir tveimur vikum sagði Jón Gunnarsson, fráfarandi þingmaður Sjálfstæðisflokks, þetta afleiðingu þess að Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og fjármálaráðherra, hefði sólundað fé og forgangsraðað verkefnum án heimilda Alþingis.
Núna er stefnt á að tilboð í þennan þriðja áfanga vegagerðar um Dynjandisheiði verði opnuð þann 28. janúar, að sögn Sólveigar Gísladóttur, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar. Gert er ráð fyrir verklokum 30. september 2026. Verktími er samkvæmt því áætlaður um eitt og hálft ár.
Heimild: Visir.is