Fyrirhugað er að byggja nýja 84 metra langa og tvíbreiða brú yfir Skjálfandafljót á Hringvegi við Fosshól.
Brúin er í grennd við Goðafoss, sem er afar fjölsóttur ferðamannastaður. Á seinustu árum hafa verið gerð bílastæði báðum megin Skjálfandafljóts og lagðir malbikaðir göngustígar frá þeim að öruggum útsýnisstöðum þar sem hægt er að njóta þess að upplifa Goðafoss.
Núverandi brú er einbreið og uppfyllir ekki öryggiskröfur Vegagerðarinnar. Hún var byggð árið 1972 og er 58 metra löng stálbitabrú með steyptu gólfi.
Hún leysti af hólmi enn eldri brú sem byggð var 1930 og er í dag notuð sem göngu- og reiðbrú. Undir henni má sjá stöpla brúar sem byggð var 1883.
Íbúar Þingeyjarsveitar hafa lýst áhyggjum yfir því að tvær aðalbrýrnar yfir Skjálfandafljót séu gamlar og einbreiðar. Telja þeir mikið öryggisatriði fyrir svæðið að nýjar og traustari brýr verði reistar. Ný brú yfir Skjálfandafljót í Köldukinn er í matsferli.
Fer ekki í umhverfismat
Verkefnið „Hringvegur (1) – Ný brú á Skjálfandafljót hjá Fosshóli“ var kynnt í skipulagsgátt og er athugasemdafresti nýlokið. Alls bárust níu athugasemdir og var það niðurstaða þeirra stofnana sem sendu inn athugasemdir að framkvæmdin þyrfti ekki að fara í umhverfismat.
Náttúrufræðistofnun segir t.d. að hún hafi kynnt sér gögn um framkvæmdina og telur að ekki sé ástæða til að framkvæmdin fari í mat á umhverfisáhrifum. Vegi þar þyngst að framkvæmdin kalli ekki á nýtt vegstæði, heldur fylgi nýr vegur núverandi vegi að mestu leyti. Framkvæmdinni fylgi nokkurt rask en það verði að öllu leyti í næsta nágrenni núverandi vegstæðis.
Samkvæmt kynningarskýrslu Vegagerðarinnar verður hin nýja brú reist við hlið núverandi brúar, eða um 35 metrum neðan hennar þar sem áin fellur í gljúfur. Að auki verði lagðir vegir sem tengja nýja brú við núverandi vegakerfi. Nýr og endurbyggður vegur og brú verða samtals um 1,5 km löng.
Ný brú verður tengd núverandi vegakerfi með um 0,8 km löngum vegi vestan Skjálfandafljóts og um 0,6 km löngum vegi austan fljótsins. Í tengslum við framkvæmdina þarf að laga tengingu að endurvarpsstöð, leggja nýja tengingu að bílastæði við Goðafoss að vestanverðu, leggja nýja tengingu að Bárðardalsvegi eystri (844) og nýja tengingu að Fljótsbakkavegi (8731).
Heildarkostnaður við byggingu brúar yfir Skjálfandafljót, ásamt vegtengingum, er áætlaður 1.200 milljónir kr.
Heimild: Mbl.is