Home Fréttir Í fréttum Ekki léttvæg ákvörðun að bíða með uppbyggingu nýs leikskóla

Ekki léttvæg ákvörðun að bíða með uppbyggingu nýs leikskóla

73
0
Leikskólinn á Blönduósi. Mynd: Huni.is

Ákvörðun sveitarstjórnar Húnabyggðar um að bíða með uppbyggingu nýs leikskóla var ekki léttvæg og var hún tekin í ljósi þess að sveitarfélagið hefur ekki fjárhagslega burði til að fjármagna verkefnið, sem hefði krafist lántöku upp á 536 milljónir.

<>

Þetta kemur fram í bókun sveitarstjórnar frá fundi hennar í gær. Fræðslunefnd Húnabyggðar hafði áður lýst yfir vonbrigðum með ákvörðunina og sagt að mikil vinna hafi verið lögð í undirbúning, þarfagreiningu og útboð.

Í bókun sveitarstjórnar kemur fram að þegar ákveðið var formlega að setja verkefnið á fjárhagsáætlun ársins 2024, fyrir rúmu ári síðan, var verið að skoða fjármögnunarleiðir sem seinna kom í ljós að voru ekki færar.

Það hefði breytt forsendum sem fjármögnun verkefnisins byggði á. Sveitarfélagið hefði á síðustu tveimur árum verið að þróa sig áfram úr mjög þröngri fjárhagslegri stöðu, sem nú sé orðin mun betri og því séu verkefni sem þessi að verða raunhæfur möguleiki.

„Það er samt ennþá þannig að verkefni af þessari stærðargráðu ef þau byggja eingöngu á lántöku af hálfu sveitarfélagsins er gríðarlega krefjandi og myndu setja sveitarfélagið í mjög erfiða stöðu þar sem allur fjárhagslegur sveigjanleiki væri farinn.

Þessi ákvörðun þýðir ekki að hætt sé við þessi áform heldur að við sætum lagi og ráðumst í þær um leið og svigrúm myndast,“ segir í bókuninni. Þá er einnig tekið fram að framlög sem Húnabyggð átti von á frá Jöfnunarsjóði til byggingu nýs leikskóla hafi verið hafnað af sjóðnum og það hafi sett strik í reikninginn.

„Þetta þýðir ekki að við séum að leggja árar í bát, við höldum áfram að laga til fjárhag sveitarfélagsins og að fjárfesta í nýjum innviðum og viðhalda þeim sem fyrir eru. Málefni unga fólksins hvort heldur sem það er í leikskóla, grunnskóla, íþróttamiðstöðinni, sundi, félagsmiðstöðinni eða hvað hafa verið og eru í fókus.

Þetta er stærsti málaflokkur sveitarfélagsins fjárhagslega séð og verður það áfram. Við erum þrátt fyrir að eiga frábæra aðstöðu hvað þetta varðar í skuld og þurfum að laga þau mál bæði hvað varðar leikskólann og grunnskólann. Sveitarstjórn tekur undir að skoða þurfi heildstætt húsnæðismál leikskóla, grunnskóla og skóladagheimilis og felur sveitarstjóra að skipa vinnuhóp um það verkefni,“ segir í bókuninni.

Í lok hennar þakkar sveitarstjórn þeim sem tóku þátt í undirbúningi verkefnisins og fram kemur að sveitarfélagið muni nýta vinnuna við fyrsta tækifæri sem gefst til að hefja byggingu nýs leikskóla.

Heimild: Huni.is