Fjölskylda Lúðvíks Péturssonar fagnar ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um að hefja óháða rannsókn, en hefði viljað að hún beindist sérstaklega að banaslysinu.
Dómsmálaráðuneytið hyggst skoða aðgerðir eða aðgerðaleysi vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga í kjölfar beiðni fjölskyldu Lúðvíks Péturssonar, sem féll í sprungu í Grindavík er hann var þar við störf í janúar. Skoðunin mun taka til tímabilsins frá því að óvissustigi var lýst yfir í Grindavík 25. október í fyrra og þar til starfshópurinn tók til starfa.
Elías Pétursson, bróðir Lúðvíks, segir fjölskylduna þakkláta fyrir að óháð rannsókn fari nú fram þó að fjölskyldan hafi vonað að rannsóknin myndi beinast sérstaklega að slysinu.
„Við höfðum að einhverju leyti væntingar um það að það yrði kannski þrengri fókus. Að rannsóknin myndi beinast eingöngu að atburðarásinni fyrir og eftir slys og slysinu sjálfu. Á sama tíma trúum við því og treystum að slysið verði burðarás í rannsókninni, enda hefur það komið fram mjög víða að þetta slys hafi verið ákveðinn vendipunktur í þeim hamförum sem voru og eru í gangi í Grindavík,“ segir Elías.
Elías segir fjölskylduna ekki vera að leita að sökudólgum þó það komi eflaust í ljós að einhverjar ákvarðanir í aðdraganda slyssins hafi verið rangar, eða að betra hefði verið að taka einhverjar ákvarðanir.
Vinnueftirlitið hefur þegar rannsakað atvikið og lögregla rannsakar það enn og nokkrir hafa stöðu sakbornings. Elías vonar að þessi rannsókn ætti að geta varpað betra ljósi á atburðarásina með það að markmiði að svona komi ekki fyrir aftur.
„Það er grundvallarhugsunin að það verður að gera allt sem mögulegt er til að minnka líkurnar og helst koma í veg fyrir það að svona hlutir komi fyrir aftur og að menn eins og Lúlli bróðir verði settur í þá aðstöðu sem hann var settur í.“
Heimild: Ruv.is