Faxaflóahafnir áforma miklar framkvæmdir á Grundartanga í Hvalfirði á næsta ári. Endurbætur verða gerðar á baksvæði Tangabakka og útbúin ný flæðigryfja fyrir kerbrot.
Tangabakki er aðalhafnarbakkinn á Grundartanga og sá lengsti, 620 metrar.
Inga Rut Hjaltadóttir, sviðsstjóri framkvæmdasviðs Faxaflóahafna, segir að svæðið sem nú stendur til að lagfæra sé hluti af upphaflegu baksvæði bakkans. Það hafi aldrei verið frágengið að fullu þótt það hafi verið nýtt bæði sem farmsvæði og geymslusvæði.
Hingað til hafi svæðið verið ófrágengið með malaryfirborði. Á síðasta ári hafi svæðið verið hækkað með burðarefni.
Betra og skilvirkara
„Með þessari framkvæmd, sem felst í yfirborðsfrágangi, malbikun og lýsingu, verður svæðið mun betra og skilvirkara og verður nýtt sem farmsvæði fyrir stóriðjufyrirtækin á Grundartanga,“ segir Inga Rut.
Tilboð í verkið voru opnuð 26. nóvember sl. Alls bárust níu tilboð og voru þau öll undir kostnaðaráætlun, sem hljóðaði upp á tæpar 497 milljónir króna. Lægsta tilboðið kom frá Þrótti ehf., Akranesi. Var það 362 milljónir, sem eru 73% af kostnaðaráætlun.
Verið er að yfirfara tilboðin og í framhaldi af því verður farið í að semja við verktaka. Framkvæmdir eiga að hefjast á næstu vikum og á að vera lokið á vormánuðum.
Gerð flæðigryfjunnar er sameiginlegt verkefni Norðuráls, Elkem og Faxaflóahafna. Það verða iðjuverin sem munu greiða stærsta hluta framkvæmdakostnaðar, að sögn Ingu Rutar.
300-350 flutningaskip á hverju ári
Nýja flæðigryfjan verður útbúin vestan við núverandi gryfju, sem er að fyllast. Tilboð í verkið voru opnuð 21. október. Alls bárust 11 tilboð og voru þau öll yfir kostnaðaráætlun, sem var 358 milljónir króna. Lægsta tilboðið áttu Berg verktakar ehf., Mosfellsbæ, 362 milljónir króna.
Magnið sem fer í flæðigryfjur ár hvert er mismikið, eða á bilinu 3-6.000 tonn frá Elkem og 10-14.000 tonn frá Norðuráli. Samtals er því um að ræða 13.000-19.000 tonn sem fara í flæðigryfjur ár hvert.
Höfnin á Grundartanga er ein sú stærsta á landinu. Þangað koma 300-350 flutningaskip á hverju ári og lesta og losa vörur. Höfnin er rekin af Faxaflóahöfnum.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í gær.
Heimild: Mbl.is