Home Fréttir Í fréttum KEA kaupir 120 leiguíbúðir á 5 milljarða

KEA kaupir 120 leiguíbúðir á 5 milljarða

39
0
Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA, til vinstri, og Egill Lúðvíksson forstjóri Íveru við undirritun samninga í dag.

Dótturfélag KEA hefur keypt 120 leiguíbúðir af Íveru íbúðafélagið, sem áður hét Heimstaden. Kaupverð eignanna er rúmir 5 milljarðar króna.

<>

Tekið er fram í tilkynningu að viðskiptin munu ekki hafa neikvæð áhrif á núverandi leigjendur íbúðanna. Stefna KEA er að reka íbúðasafnið til langs tíma og fram kemur að félagið stefni á frekari vöxt á þessu sviði.

Breytum umgjörðinni

„Þessi kaup eru fyrsta skref KEA inn á íbúðaleigumarkaðinn hér á nærsvæði okkar en í gegnum dótturfélagið Skálabrún hyggst KEA byggja upp til lengri tíma safn íbúða til almennrar útleigu,“ segir Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, í tilkynningunni.

„Það er ekkert stórt sérhæft og staðbundið félag um leigu íbúða á almennum markaði hér á þessu svæði og við erum að breyta þeirri umgjörð með þessum kaupum. Það hefur skort félag eins og þetta á þessum markaði og þessi fjárfesting muni til lengri tíma styrkja almennan íbúðaleigumarkað á svæðinu.“

Kaup þessara 120 íbúða er ein stærsta fjárfesting KEA í nokkurn tíma en hún er liður í þeim breyttu áherslum hjá félaginu að auka verulega vægi fasteignatengdra verkefna á efnahagsreikningi sínum ásamt því að fækka og stækka þau verkefni sem eru á höndum félagsins, að sögn framkvæmdastjórans. „Ásamt því að reka íbúðaleigufélag stefnum við á að taka þátt í þróunarverkefnum ýmiskonar á fasteigna- og íbúðamarkaði á okkar nærsvæði,“ segir Halldór.

Trúi að leigutakarnir verði ánægðir

Ívera hefur nýverið gefið út áform um tvöföldun á eignasafni sínu sem er í dag um 1.600 íbúðir. „Sala eignanna á Akureyri er liður í endurskipulagningu eignasafnsins og styrkir undirstöður félagsins fyrir frekari vöxt.

Í viðræðunum lögðu Ívera og KEA áherslu á áframhaldandi húsnæðisöryggi fyrir leigutaka íbúðanna en stefna KEA er að reka íbúðasafnið til langs tíma og stefnir félagið á frekari vöxt á þessu sviði. Því munu viðskiptin ekki að hafa neikvæð áhrif á núverandi leigutaka. Viðskiptin marka brotthvarf Íveru af íbúðamarkaði á Akureyri og félagið stefnir ekki á frekari umsvif þar í náinni framtíð. Stefnt er að afhendingu eignanna fyrir jól,“ segir í tilkynningunni.

„Það er ánægjulegt að skerpa á rekstri félagsins með þessari endurskipulagningu í okkar rekstri og horfa á eftir eignunum á Akureyri í hendur trausts aðila með metnaðarfull langtímaáform. Eignirnar eru vel staðsettar og hafa verið eftirsóttar á leigumarkaði. KEA er rótgróinn fjárfestir í sínu nærumhverfi og gildi þeirra fara vel saman við okkar. Ég trúi að leigutakarnir verði ánægðir með þessi viðskipti,“ segir Egill Lúðvíksson forstjóri Íveru í tilkynningunni.

Heimild: Akureyri.net