Síðastliðið vor var auglýst formlega til sölu gamla kirkjan á Stöðvarfirði en sú stendur hátt í byggðinni og þar verið rekin ferðaþjónusta hin síðari ár. Allmargir aðilar sýndu kaupum áhuga en þó eingöngu í því skyni að flytja hana burt af staðnum.
Ekki leið á löngu eftir auglýsingu þess efnis að kirkjan merka, sem verður hundrað ára gömul á næsta ári, væri til sölu að áhugasamir sýndu kaupum áhuga og það töluverður fjöldi. Það hins vegar kom bæði seljendunum sjálfum sem og fasteignasalanum á óvart hversu margir vildu kaupa kirkjuna og flytja hana eitthvað allt annað.
„Það kom okkur öllum verulega á óvart,“ segir Þórdís Pála Reynisdóttir hjá LF-fasteignasölunni sem auglýsti kirkjuhúsið á sínum tíma. „Seljendum varð svo mikið um að það voru fljótt settar þær kvaðir við söluna að kirkjan yrði áfram á sínum stað og aðrir kaupendur kæmu ekki til greina. Hún seldist svo tiltölulega skömmu eftir það en kaupendurnir eru erlendir aðilar sem þó hafa búið hér á landi um skeið og hreiðrað um sig. Þannig að það var komið í veg fyrir að byggðin missti þetta fallega hús frá sér.“
Samkvæmt upplýsingum Austurfréttar mun áfram verða rekin ferðaþjónusta í kirkjunni gömlu eins og verið hefur um langt árabil undir nafninu Gistiheimilið Kirkjubær.