„Fyrir hvert prósent í lækkun vaxtastigs breytilegra vaxta lækka vaxtagjöld félagsins um 230 m.kr. á ársgrundvelli,“ segir Jón Þór.
Heildarhagnaður fyrir skatta hjá Kaldalóni nam 2,8 milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins samkvæmt nýbirtu uppgjöri félagsins.
Rekstrartekjur félagsins námu 3,2 milljörðum sem er hækkun úr 2,1 milljarði á fyrstu sex mánuðum í fyrra.
Ávöxtun eigin fjár var 17% á tímabilinu. Handbært fé Kaldalóns í lok tímabilsins nam 1,7 milljörðum.
Fasteignafélagið lauk nýverið við 7,8 milljarða fasteignaviðskipti er félagið keypti allt hlutafé annars vegar IDEA ehf. og hins vegar K190 hf.
„Rekstur Kaldalóns var í samræmi við horfur félagsins sem kynntar voru eftir hálfsársuppgjör félagsins. Hagnaður fyrir skatta nam 2.807 m.kr. á fyrstu níu mánuðum ársins Það sem af er seinni helmingi ársins hefur félagið staðið að gerð nýrra leigusamninga um rými til afhendingar á næstu mánuðum. Þá hefur félagið gengið frá viðskiptum um kaup á fasteignafélögunum K190 hf. og Idea ehf. en áætlað er að rekstrartekjur félagsins aukist um 636 m.kr. á ársgrundvelli,” segir Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Kaldalóns, í uppgjörinu.
Kaldalón gaf út fyrsta græna skuldabréfaflokk félagsins í október þegar seld voru skuldabréf fyrir 4 milljarða á ávöxtunarkröfunni 3,8%.
„Útgáfan er sú fyrsta sinnar tegundar hjá félaginu eftir útgáfu umgjarðar um græna fjármögnun sem hefur hlotið vottun frá Sustainalytics, leiðandi viðurkennds vottunaraðila á heimsvísu. Eftir útgáfu skuldabréfaflokksins er um 61% af heildarskuldum Kaldalóns á breytilegum vöxtum. Þannig hefur lækkun vaxtastigs jákvæð áhrif á rekstur Kaldalóns. Fyrir hvert prósent í lækkun vaxtastigs breytilegra vaxta lækka vaxtagjöld félagsins um 230 m.kr. á ársgrundvelli. Þá eru 64% af vaxtaberandi skuldum félagsins uppgreiðanlegar,“ segir Jón Þór.
Hann bætir við að þrátt fyrir núverandi vaxtastig sé rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar umfram hrein fjármagnsgjöld á fyrstu níu mánuðum ársins.
Kaldalón hóf endurkaup á þriðja ársfjórðungi. Tveimur endurkaupaáætlunum er lokið og á félagið nú 3,01% af útgefnu hlutafé.
„Þróunarverkefni félagsins eru á undan áætlun og eru viðbrögð við eignum góð. Félagið metur nú frekari þróunarkosti fyrir nýjar fasteignir á höfuðborgarsvæðinu og líklegt er að frekari uppbygging hefjist á næsta ári. Eftirspurn í helstu eignaflokkum félagsins er góð. Þá hefur tækifærum til vaxtar fjölgað frá fyrri hluta ársins og finna stjórnendur fyrir aukinni hreyfingu á markaði með atvinnuhúsnæði. Áfram eru því tækifæri til ákjósanlegs vaxtar,“ segir Jón Þór.
Heimild: Vb.is