Byggingarfélög eru áberandi á listanum en af 30 félögum eru 9 félög sem sinna byggingu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis.
Samvinnufélagið Hafgæði hagnaðist um 182 milljónir króna í fyrra samkvæmt áætlun Viðskiptablaðsins en félagið hagnaðist um 176 milljónir árið 2022, samkvæmt úttekt Viðskiptablaðsins í fyrra.
Hafgæði er í eigu Grétars Finnbogasonar og Guðmundar Steinars Birgissonar en skráð starfsemi félagsins er önnur ótalin vinnsla fiskafurða, krabbadýra og lindýra. Félagið er efst á lista yfir félög í iðnaði og verktaka, annað árið í röð.
Úttekt Viðskiptablaðsins nær í heild til 400 afkomuhæstu samlags- og sameignarfélaganna í fyrra, byggt á álögðum tekjuskatti og tryggingagjaldi samkvæmt álagningarskrá lögaðila sem Skatturinn birti á dögunum.
Félagið Arnardalur, sem er í eigu Sverris Arnar Þórólfssonar og sinnir vegagerð, er í öðru sæti á listanum og færir sig upp um eitt sæti milli ára. Hagnaður félagsins nam 144 milljónum samkvæmt áætlun Viðskiptablaðsins og tvöfaldast milli ára.
Í þriðja sæti er félagið Jarðval, sem er í eigu Árna Geirs Norðdahl Eyþórssonar og sinnir undirbúningsvinnu á byggingarsvæði, en félagið var í öðru sæti í fyrra. Hagnaður Jarðvals nam 92 milljónum í fyrra, samanborið við 97 milljónir árið 2022.
Byggingarfélög eru áberandi á listanum en af 30 félögum á listanum eru 9 félög sem sinna byggingu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis. Samanlagt nam hagnaður 30 efstu félaganna tæpum milljarði króna og launagreiðslur 2,1 milljörðum.
Úttektin sem birtist í Viðskiptablaðinu í vikunni nær til 400 félaga í níu flokkum. Áskrifendur geta nálgast listana í heild hér.
Taka skal fram að í úttekt Viðskiptablaðsins er ekki tekið tillit til yfirfæranlegs taps frá fyrri árum – sem draga má frá skattstofni – né lægra skatthlutfalli tekna af arðgreiðslum, enda liggja upplýsingar um slíkt ekki fyrir.
Heimild: Vb.is