Viðgerðir og stækkun Seðlabanka Íslands eru þegar komnar fram úr áætlun. Framkvæmdunum, sem eru komnar yfir 3 milljarða króna, er ekki enn lokið.
Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra við fyrirspurn Ásthildar Lóu Þórsdóttur, þingmanns Flokks fólksins um kostnað við endurbætur og stækkun húsnæði Seðlabankans að Kalkofnsvegi 1.
Breytingarnar voru áætlaðar í aðdraganda sameiningar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins árið 2019. Árið 2021 var ákveðið að stækka bygginguna um 500 fermetra og lyfta þaki yfir miðrými viðbyggingar.
Framkvæmdunum er skipt í tvo fasa, framkvæmdir á 2. til 5. hæði í turni í fyrri fasa og endurnýjun 1. hæðar og hluta af 2. hæð í síðari.
Í tölum ráðuneytisins kemur fram að raunkostnaður í öllum hlutum framkvæmdarinnar er kominn yfir kostnaðaráætlun og í flestum tilfellum yfir tilboð verktaka einnig.
Stærsti kostnaðarliðurinn er alrýmið. Þar var gert ráð fyrir kostnaði upp á 1,66 milljarð króna en tilboð hljóðaði upp á 1,93 milljarð. 87 prósent verksins er lokið en kostnaðurinn þegar kominn í 1,8 milljarð króna. Sem þýðir að ætla má að raunkostnaðurinn fari yfir 2 milljarða króna.
Aðrir hlutar verksins eru þegar kláraðir. Kostnaðaráætlun verksins í heild var um 2,73 milljarðar króna en tilboð verktaka hljóðaði upp á 3,06 milljarð. Raunkostnaður er þegar orðinn 3,17 milljarða og á eftir að hækka, hugsanlega um 200 milljónir króna.
Heimild: Dv.is