Home Fréttir Í fréttum Rafmagnsmöstur Landsnets enn í viðkvæmri stöðu

Rafmagnsmöstur Landsnets enn í viðkvæmri stöðu

36
0
RÚV – Sunna Karen Sigurþórsdóttir

Vel er fylgst með rafmagnsstæðum sem unnið var við að verja fyrir hraunrennsli í gærkvöld og nótt. Upplýsingafulltrúi Landsnet segir stöðuna viðkvæma.

<>

Landsnet og Brunavarnir Suðurnesja unnu hörðum höndum í gærkvöld og fram á nótt við að verja tvær rafmagnsstæður í Svartsengislínu fyrir hraunrennsli. Staðan er enn viðkvæm að sögn upplýsingafulltrúa Landsnets.

Brunavarnir Suðurnesja voru kallaðar til um klukkan sex í gærkvöld og unnu að kælingu hraunsins, en erfiðlega gekk að fá vatn á svæðið, að því er segir í færslu þeirra á Facebook.

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, sagði í samtali við fréttastofu á tíunda tímanum í morgun að unnið hafi verið fram eftir nóttu við að verja möstrin og að það hafi gengið vel.

Í nótt þegar Brunavarnir Suðurnesja og Landsnet unnu að því að verja rafmagnsmöstur í Svartsengislínu.
Brunavarnir Suðurnesja

„Staðan er enn viðkvæm, við erum að fylgjast mjög vel með og höldum áfram að grípa til aðgerða ef þess þarf.“

Svartsengislína er rafmagnslaus og strengja þarf nýjan leiðara á milli mastranna svo straumur komist á hana.

Hraun streymir enn til vesturs og rennur meðfram varnargörðum við Svartsengi og Bláa lónið en einnig til norðurs og austurs.

Steinunn segir að verið sé að eyða tíma í að verja möstrin núna þar sem viðgerð á þeim tæki langan tíma. Ekki sé vitað hvenær starfsfólk Landsnets kæmist til viðgerða. Auðveldara sé að strengja leiðara á milli mastranna, það minnki viðgerðartíma. Á sama tíma sé verið að huga að öryggi starfsfólks Landsnets.

Heimild: Ruv.is