Fern ný jarðgöng verða undirbúin, Fossvogsbrú sett af stað og lykilvegir byggðir upp á Vestfjörðum og á Norðausturlandi. Breikkun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi frestast hins vegar, samkvæmt samgönguáætlun næsta árs, sem kynnt var í dag.
Stóru línurnar í vegagerð næsta árs voru markaðar með samþykkt fjárlaga frá Alþingi í vikunni. Í gær kynnti innviðaráðuneytið nánari forgangssröðun þeirra 27 milljarða króna sem verja á til framkvæmda og viðhalds á vegakerfinu. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2.
Stærstu verkefnin eru þegar í gangi; Reykjanesbraut, Arnarnesvegur og Hornafjarðarfljót. Á morgun verður samningur um nýja Ölfusárbrú undirritaður og fyrsta skóflustunga tekin.
Stærstu nýju verkútboðin verða Fossvogsbrú, Gufudalssveit, Dynjandisheiði og Brekknaheiði en breikkun Vesturlandsvegar að Hvalfjarðargöngum frestast. Þetta þýðir að Fossvogsbrú, sem er hluti borgarlínunnar, fer á fullt. Lokaáfanginn í Gufudalssveit verður boðinn út, með brúasmíði yfir Gufufjörð og Djúpafjörð, og sömuleiðis fer síðasti kaflinn á Dynjandisheiði í útboð. Norðaustanlands verður vegurinn um Brekknaheiði á Langanesi byggður upp milli Þórshafnar og Bakkafjarðar.
Hér eru þó aðeins nefnd stærstu verkefnin. Því til viðbótar verður 4,3 milljörðum króna varið til margra smærri. Þannig verður 2,5 milljörðum króna varið í slitlag á sveitavegi víða um land og 500 milljónum til að fækka einbreiðum brúm.
Fjarðarheiðargöng milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða bíða enn. Hins vegar er gert er ráð fyrir framlögum til undirbúnings jarðaganga á fjórum öðrum stöðum. Þetta eru Fljótagöng, ný Hvalfjarðargöng, ný Ólafsfjarðargöng og göng milli Súðavíkur og Ísafjarðar.
Heimild: Visir.is