Home Fréttir Í fréttum Metfjöldi umsókna til Asks – 70 verkefni sækja um styrki

Metfjöldi umsókna til Asks – 70 verkefni sækja um styrki

33
0
Mynd: Hms.is

Sjötíu umsóknir bárust til Asks – mannvirkjarannsóknasjóðs á sviði nýsköpunar og rannsókna. Áætlaður kostnaður verkefnanna er rúmur 1,7 milljarður króna og sótt er um styrki fyrir 38% kostnaðar eða tæpar 665 milljónir króna.

<>

Um er að ræða metfjölda umsókna en annað styrkárið bárust næstflestar umsóknir eða 62 talsins. Fjöldi umsókna endurspeglar mikinn áhuga á að bæta þekkingu og stuðla að framförum í mannvirkjagerð

Askur er mannvirkjarannsóknasjóður í eigu innviðaráðuneytisins og háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytisins. Sjóðurinn veitir styrki til mannvirkjarannsókna með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum í mannvirkjagerð.

Sjóðurinn mun úthluta styrkjum í fjórða sinn fyrir úthlutunarárið 2024 en frestur til að skila inn umsóknum rann út 9. nóvember síðastliðinn.

Rannsóknir í byggingariðnaði eru afar mikilvægar fyrir íslenskt samfélag þar sem gallar á mannvirkjum, raka- og mygluskemmdir hafa veruleg efnahagsleg og heilsufarsleg áhrif.

Langflest verkefnanna hafa umhverfislegan ávinning og mörg þeirra leggja að mörkum til að ná markmiðum verkefnisins Byggjum grænni framtíð, en mannvirkjaiðnaðurinn er talinn ábyrgur fyrir allt að 40% af alþjóðlegri kolefnislosun.

Mikilvæg skref hafa verið tekin til að efla rannsóknarumhverfi mannvirkjarannsókna og auka samstarf Norðurlanda til að stuðla að vistvænni mannvirkjagerð. Norrænir ráðherrar hafa samþykkt yfirlýsingu um sjálfbærni í mannvirkjamálum þar sem markmiðið er að Norðurlöndin verði leiðandi í vistvænni mannvirkjagerð í heiminum.

Í húsnæðisstefnu eru markmið um gæði íbúða í jafnvægi við umhverfið. Unninn hefur verið Vegvísir um mótun rannsóknarumhverfis mannvirkjagerðar og vísinda- og tækniráð hefur verið sett á fót til að greina rannsóknaþörf á sviðum mannvirkja- og húsnæðismála með hliðsjón af húsnæðisstefnu, landsskipulagsstefnu og loftslagsmarkmiðum Íslands.

Fjöldi umsókna til Asks undirstrikar áhuga iðnaðarins á því að stuðla að heilnæmi bygginga, þróa nýjar, sjálfbærari byggingarlausnir og leggja sitt af mörkum til grænni framtíðar. Verkefnin í Aski kalla oft á breiða samvinnu og ólíka þekkingu sem eflir rannsóknarsamfélagið hérlendis.

Í ár eru 185 milljónir til úthlutunar eða hátt í tvöföld fjárhæð fyrri ára.

Heimild: Hms.is