Home Fréttir Í fréttum Kaldalón kaupir Grjót­háls 2 fyrir 132,5 milljónir

Kaldalón kaupir Grjót­háls 2 fyrir 132,5 milljónir

118
0
Ljósmynd: Aðsend mynd

Á lóðinni er gert ráð fyrir allt að 15 hraðhleðslustæðum.

<>

Borgarráð samþykki í síðustu viku að úthluta Lónseyri ehf., dótturfélagi fasteignafélagsins Kaldalóns, lóð við Grjótháls 2, og selja félaginu byggingarétt lóðarinnar fyrir 132,5 milljónir króna. Þetta kemur fram í fundargerð borgarráðs.

Alls bárust tvö gild tilboð og var Lónseyri ehf. hæstbjóðandi. Félagið YES-EU bauð 39,4 milljónir króna í lóðina.

Lóðin Grjótháls 2 er um 1.876 fermetrar og á henni er heimilt að útbúa aðstöðu fyrir allt að 15 hraðhleðslustæði, auk tveggja byggingarreita fyrir spennustöðvar. Hámarksbyggingarmagn er 16 fermetrar og hámarkshæð er 3 metrar.

Borgin auglýsti lóðina til sölu í byrjun október síðastliðnum. Í útboðsgögnum var tekið fram að hleðslustæðin skulu opin almenningi óháð tegund bifreiða, en þó er ekki gerð krafa um aðra tengimöguleika en CCS-2 tengi.

Meirihlutann hafi mögulega lært af fyrri mistökum
Kolbrún Áslaug Baldursdóttir, áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins í borgarráði, lagði fram eftirfarandi bókun undir þessum lið.

Á sínum tíma úthlutaði borgin lóðum til olíufélaga fyrir eldsneytissölu. Þegar sú starfsemi minnkaði, á síðustu árum, gátu þessi félög selt byggingarrétt á þessum lóðum fyrir háar upphæðir og það með samþykki borgarinnar. Vonandi verður girt fyrir slíkt í núverandi og framtíðar úthlutunum.

Svo virðist sem eitthvað sé tekið á þessu í þessum samningi. sbr. það sem segir í gögnum: „Ef samþykkt verður breyting á deiliskipulagi að ósk lóðarhafa, sem felur í sér aukinn byggingarrétt á lóð eða breytta húsagerð (t.d. úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði), áskilur Reykjavíkurborg sér rétt til að endurskoða söluverð byggingarréttar á viðkomandi lóð, og/eða að innheimta greiðslu fyrir aukinn byggingarrétt á grundvelli útboðsverðs, eða með hliðsjón af söluverði sambærilegs byggingarréttar á nálægum lóðum“.

Samkvæmt þessu hefur meirihlutinn mögulega eitthvað lært af fyrri mistökum.

Heimild: Vb.is