Home Fréttir Í fréttum Mestu virkjanaframkvæmdir í sögu Græn­lands fram­undan

Mestu virkjanaframkvæmdir í sögu Græn­lands fram­undan

109
0
Buksefjorden 1 er í dag stærsta virkjun Grænlands, 45 megavött. Buksefjorden 2 verður 76 megavött. Nukissiorfiit

Fjármálaráðherrar Danmerkur og Grænlands hafa kynnt samkomulag þess efnis að danska ríkið ábyrgist 95 prósent af lánsfjármögnun tveggja nýrra vatnsaflsvirkjana á Grænlandi upp á sextíu milljarða íslenskra króna. Samkomulagið um lánsábyrgð Dana greiðir leiðina að mestu virkjanaframkvæmdum í sögu þessa næsta nágrannalands Íslendinga.

<>

Íslenskur verkfræðingur, Erlingur J. Leifsson, mun hafa yfirumsjón með framkvæmdum. Hann var þar til í haust verkefnisstjóri hjá flugvallafélagi Grænlands við uppbyggingu nýrra alþjóðaflugvalla, sem er langt komin. Hann hefur núna verið ráðinn yfirmaður verklegra framkvæmda NunaGreen, félags sem annast orkuframkvæmdir fyrir hönd grænlenskra stjórnvalda. Það gegnir svipuðu hlutverki og framkvæmdadeild Landsvirkjunar.

Erlingur Jens Leifsson hefur verið ráðinn yfirmaður verklegra framkvæmda NunaGreen, félags í eigu Landsstjórnar Grænlands.
Egill Aðalsteinsson

Stefnt er að því að virkjanirnar verði byggðar á árunum 2026 til 2029. Með þeim eykst hlutfall endurnýjanlegrar orku í raforkuframleiðslu og húshitun Grænlendinga úr 70 prósentum upp í 90 prósent. Hlutfall olíu minnkar að sama skapi, sem og kolefnisspor Grænlands.

„Ábyrgðin frá danska ríkinu skiptir sköpum til að tryggja lánskjör sem gera framkvæmd verkefnisins efnahagslega sjálfbæra. Þetta verkefni er lykilskref í grænum umskiptum Grænlands og styður við markmið landsstjórnarinnar um að auka græna orkuframleiðslu,“ er haft eftir grænlenska fjármálaráðherranum Erik Jensen í fréttatilkynningu.

Þrjú ár eru frá því grænlenska þingið samþykkti virkjanaframkvæmdirnar og ríkti einhugur um ákvörðunina meðal þingmanna. Stöð 2 fjallaði þá um áformin.

Stærsti hluti framkvæmdanna felst í byggingu Buksefjorden 2, vatnsaflsvirkjunar, sem verður sú stærsta á Grænlandi. Buksefjorden 1 er núna aflmesta virkjun landsins, 45 megavött, en Buksefjorden 2 verður 76 megavött.

Raforkan frá Buksefjord, eða Brókarfirði, þjónar höfuðstaðnum Nuuk, sem með fólksfjölgun hefur í vaxandi mæli þurft að treysta á dísilrafstöðvar til að mæta raforkuþörf. Orkan er flutt 58 kílómetra leið til Nuuk en háspennulínan er meðal annars strengd yfir Ameralik-fjörðinn í einu 5,4 kílómetra löngu hafi, sem er það lengsta í heiminum fyrir háspennulínu.

Hin virkjunin á að þjóna bæjunum Aasiaat og Qasigiannguit við sunnanverðan Diskó-flóa. Uppsett afl hennar er áformað 21 megavatt.

Fjármálaráðherrar Danmerkur og Grænlands, Nicolai Wammen og Erik Jensen, handsala samninginn.
Naalakkersuisut

„Bæði verkefnin tryggja ekki aðeins öfluga efnahagsþróun. Þau gera okkur um leið óháðari jarðefnaeldsneyti og greiða leið fyrir loftslagsvænna Grænland, sem er í samræmi við ákvarðanir grænlenska þingsins,“ segir fjármálaráðherra Grænlands ennfremur.

Grænlendingar eiga í dag fimm vatnsaflsvirkjanir upp á samtals um 90 megavött. Athyglisvert er að íslenskir verktakar byggðu fjórar þessara virkjana. Aðeins virkjunin í Buksefjord var reist af öðrum.

Ennfremur hefur íslenskt fyrirtæki, Vélaverkstæðið á Árteigi í Kinn í Suður-Þingeyjarsýslu, reist nokkrar litlar bændavirkjanir á Suður-Grænlandi. Þá hefur Landsvirkjun Power, dótturfélag Landsvirkjunar, komið að rekstri og eftirliti þarlendra virkjana.

Haustið 2012 sýndi Stöð 2 frá virkjanaframkvæmdum við bæinn Ilulissat við Diskó-flóa. Þar reistu íslensk fyrirtæki undir forystu Ístaks 22,5 megavatta virkjun, sem var hönnuð frá grunni af íslenskum verkfræðistofum.

Heimild: Visir.is