Home Fréttir Í fréttum Reykjavíkurborg fær ekki að rífa hús sem Minjastofnun hefur sagt vera ónýtt

Reykjavíkurborg fær ekki að rífa hús sem Minjastofnun hefur sagt vera ónýtt

85
0
Vesturbær Reykjavíkur. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki með beinum hætti. Mynd: Dv.is

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi þá ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur að samþykkja deiliskipulag tveggja lóða við Holtsgötu og einnar lóðar við Brekkustíg í vesturbæ borgarinnar.

<>

Samkvæmt breytingunni var meðal annars veitt heimild til að rífa hús á annarri lóðinni við Holtsgötu á þeim grundvelli að það hefði verið úrskurðað ónýtt. Samkvæmt úrskurði nefndarinnar virðist þó fara tvennum sögum af því hvort húsið sé í raun og veru ónýtt.

Úrskurðurinn er mjög ítarlegur. Þar kemur fram að deiliskipulagið fór sína leið í borgarkerfinu þar til það var endanlega staðfest í borgarstjórn í maí síðastliðnum. Í meginatriðum gengur það út á að auka leyfilegt byggingarmagn á lóðunum þremur og þétta þannig byggðina auk þess að hús á annarri lóðinni við Holtsgötu verði rifið þar sem það sé ónýtt.

Deiliskipulagið var hins vegar kært af eiganda fasteignar á lóð við Holtsgötu, þó ekki annarrar af þeim sem deiliskipulagið tekur til, og eiganda fasteignar við Öldugötu.

Vísuðu þeir meðal annars til þess að sá hluti vesturbæjarins þar sem lóðirnar eru, sem yfirleitt er kallaður Gamli vesturbærinn, nyti sérstakrar hverfisverndar, samkvæmt aðalskipulagi  Reykjavíkur og að sú þétting byggðar sem deiliskipulagið kveði á um passi mjög illa við byggðarmynstur hverfisins.

Hátt varðveislugildi og ekki ónýtt

Í kærunum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir meðal annars að í húsakönnun Borgarsögusafns hafi húsið við Holtsgötu, sem samkvæmt deiliskipulaginu átti að rífa, verið metið þannig að það hefði hátt varðveislugildi, einkum vegna menningarsögulegs gildis sem hluti af elstu byggð á svæðinu. Húsið sé þar að auki friðað vegna aldurs og standi jafnframt á hverfisverndarsvæði.

Þegar kom að fullyrðingum um að húsið væri ónýtt sögðu kærendurnir að hvergi hefði komið fram húsið væri ónýtt í þeim skilningi að vera óíbúðarhæft enda hefði það verið lagað og búið hefði verið í því síðan þá, í 22 ár.

Hins vegar hafi eigendur hússins ekki hug á að eyða meiri peningum í viðhald á því og muni það þar með óhjákvæmilega verða óíbúðarhæft sem eigi við um öll önnur hús þar sem viðhaldi sé ekki sinnt.

Staðreyndin sé hins vegar sú að núverandi ástand hússins sé ekki svo slæmt að það geti talist óíbúðarhæft. Vísuðu kærendurnir enn fremur til áðurnefndrar húsakönnunar Borgarsögusafnsins til staðfestingar á varðveislugildi hússins. Þótt að Minjastofnun hafi áður gefið leyfi fyrir niðurrifi hússins sem sé lágreist og gamalt timburhús sé ótækt að byggja háreist fjölbýlishús í staðinn eins og deiliskipulagið kveði á um.

Veggjatítlur

Í andsvörum sínum við kærunum vísaði Reykjavíkurborg meðal annars til þess að hverfisvernd útiloki ekki nýjar byggingar á lóðum innan viðkomandi svæða. Borgin andmælti því einnig að deiliskipulagið væri ekki í samræmi við þá byggð sem fyrir væri í hverfinu og sagði ásýnd byggðarinnar fjölbreytilega og ekki alltaf í samræmi.

Hvað varðar húsið við Holtsgötu, sem deiliskipulagið kvað á um að mætti rífa, vísaði borgin í sínum andsvörum einkum til þess að Minjastofnun hafi framkvæmt húsakönnun á húsinu og úrskurðað það ónýtt vegna veggjatítlu og veitt heimild til niðurrifs þrátt fyrir friðun. Það sé ekki í höndum Reykjavíkurborgar að draga í efa réttmæti álits sem byggi á lögbundnu hlutverki Minjastofnunar.

Það kemur ekki fram í þessum úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamáli hvenær nákvæmlega þessi húsakönnun Minjastofnunar fór fram.

Í niðurstöðu nefndarinnar segir að ljóst sé að ágreiningur ríki um ástand hússins og nauðsyn þess að rífa það en ekki liggi fyrir nýleg gögn um ástand þess en samkvæmt kærendum hafi verið búið í húsinu alla tíð.

Í greinargerð deiliskipulagsins komi fram að húsið hafi verið úrskurðað ónýtt vegna veggjatítlu og í húsakönnun komi enn fremur fram að sótt hafi verið um leyfi fyrir niðurrifi þess árið 2006 og að Húsafriðunarnefnd hafi ekki gert athuga­semdir við það.

Nefndin telur aftur á móti að það aukna byggingamagn sem deiliskipulagið heimili á lóðunum þremur, úr fimm íbúðum í allt að fimmtán, hafa í för með sér breytingar á byggðamynstri og götumynd sem Reykjavíkurborg hafi ekki fært nægileg rök fyrir hvernig samræmist markmiðum borgarverndarstefnu, í ljósi þess að umrætt svæði njóti hverfisverndar.

Á þessum grundvelli sé samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur á umræddu deiliskipulagi lóðanna þriggja felld úr gildi.

Ógildingin felur það um leið í sér að húsið á Holtsgötu, sem veita átti heimild til að rífa, fær að standa óhaggað enn um sinn.

Heimild: Dv.is