Kjarnafjölskyldum hefur fjölgað um 45 þúsund síðasta áratug en íbúðum aðeins um 25 þúsund.
Samkvæmt Hagsjá Landsbankans hefur eftirspurn eftir íbúðum til skamms tíma sveiflast nokkuð skýrt með vaxtastigi í landinu.
Íbúðaverð rauk upp um leið og vextir voru lækkaðir á tímum faraldursins en verulega fór að hægja á verðhækkunum þegar vextir voru hækkaðir.
„Undirliggjandi er þó síaukin þörf á íbúðum, aðallega vegna aukins aðflutnings,“ segir í Hagsjá bankans.
Á síðasta áratugnum hefur íbúum á Íslandi fjölgað um 20%, um rúmlega 60 þúsund manns. Kjarnafjölskyldum hefur fjölgað um 45 þúsund en íbúðum aðeins um 25 þúsund.
Samkvæmt greiningardeild bankans jókst þörfin einnig skyndilega vegna hamfaranna við Grindavík sem segja má að hafi þurrkað út hluta íbúðastofnsins að mati bankans.
Á sama tíma tók eftirspurn við sér vegna þess stuðnings sem Grindvíkingar fengu frá hinu opinbera og vegna væntinga um aukna íbúðasölu.
„Fjárfesting í íbúðarhúsnæði virðist hafa færst í aukana á allra síðustu mánuðum eftir þó nokkurn samdrátt síðustu ár. Hún var 6,6% meiri á fyrri helmingi þessa árs en á sama tíma í fyrra og jókst um 7% á milli ára á fjórða ársfjórðungi síðasta árs.“
Í hagspá Landsbankans frá miðjum október er áfram gert ráð fyrir kröftugri íbúðafjárfestingu og að hún aukist um 5% á þessu ári, 3% næstu tvö ár og um 4% árið 2027.
Samkvæmt talningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá því í september reyndust íbúðir í byggingu 16,8% færri en í sama mánuði árið áður.
„Merki eru um að framkvæmdir hefjist á of fáum íbúðum um þessar mundir en á sama tíma er minna um að framvinda á framkvæmdum standi í stað. Því virðast verktakar frekar leggja áherslu á að klára yfirstandandi verkefni en að hefjast handa við ný.
Gangi spáin eftir verður uppbyggingin ekki frábrugðin því sem verið hefur undanfarin ár en vegna þess hversu fá ný verkefni virðast komast á skrið um þessar mundir spáir HMS minni fjölgun íbúða árið 2026 en á þessu ári og því næsta,“ segir í hagsjá bankans.
HMS gerir ráð fyrir að 3.024 nýjar fullbúnar íbúðir verði klárar á þessu ári, 2.897 á næsta ári og 2.323 árið 2026.
„Hvort það dugi til þess að mæta aukinni eftirspurn, bæði vegna lækkandi vaxta og aukinnar þarfar, á þó eftir að koma í ljós,“ segir í Hagsjánni.
Heimild: Vb.is