Home Fréttir Í fréttum Bjartsýnn á að hægt verði að fjármagna helstu verkefni samgönguáætlunar

Bjartsýnn á að hægt verði að fjármagna helstu verkefni samgönguáætlunar

52
0
Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra og starfandi innviðaráðherra (B). RÚV – Ragnar Visage

Fjármálaráðherra og starfandi innviðaráðherra telur að samstaða náist á þingi um að tryggja brýnum verkefnum samgönguáætlunar fjármagn og klára fjármálaáætlun fyrir kosningar.

<>

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra og starfandi innviðaráðherra, segist bjartsýnn á að hægt verði að tryggja fjármagn fyrir ákveðin verkefni sem liggja fyrir á samgönguáætlun næsta árs.

„Mér finnst það mjög líklegt,“ segir Sigurður Ingi. „Ég hef ekki heyrt annað en að allir þingmenn, sama hvar í flokki þeir standa, séu sammála því að það sé mikilvægt að ljúka fjárlagagerðinni og að þau kerfi okkar sem þurfa á heimildum Alþingis að halda til þess að lífið gangi sinn eðlilega gang fyrsta janúar, þar á meðal þá heimildir til Vegagerðarinnar að bjóða út verkefni vegna næsta árs, liggi fyrir, þannig að mér finnst það líklegt, já.“

Samkvæmt fjármálaáætlun er gert ráð fyrir um 1,6 milljörðum króna í Hafnabótasjóð, sem fer í framkvæmdir og tjónaviðgerðir, um 4,7 milljörðum í rekstur flugvalla og flugleiðsögu, og 45 milljörðum króna til Vegagerðarinnar, þar af rúmum 27 milljörðum til framkvæmda á vegakerfinu.

„Ég fór með minnisblað í ríkisstjórn í síðustu viku varðandi það að tryggja að þær fjárheimildir sem eru í fjárlögunum, að þær séu þá eyrnamerktar þeim verkefnum, sérstaklega varðar þetta Hafnabótasjóð, en líka varðandi flugvelli og vegi,“ segir Sigurður Ingi. „Sú tillaga horfir þá bara til eins árs og það verður þá nýrrar ríkisstjórnar og nýs þings að fara í gegnum samgönguáætlun í heild sinni,“ segir Sigurður Ingi.

Heimild: Ruv.is