Home Fréttir Í fréttum Háþrýstiþvottur gæti minnkað vegblæðingar

Háþrýstiþvottur gæti minnkað vegblæðingar

98
0
Þegar yfirborð vega, sem klæddir eru ekki með malbiki heldur klæðingu, hitnar mikið getur bikið byrjað að blæða sem veldur ökumönnum hættu. Vegagerðin segir þungaflutninga skapa aðstæður sem valdi vegblæðingum. RÚV – Vilhjálmur Þór Guðmundsson

Meira malbik og háþrýstiþvottur eru meðal fyrirbyggjandi aðgerða sem gætu minnkað hættu á vegblæðingum. Verkefnastjóri hjá Vegagerðinni segir vitað hvað valdi blæðingum en fjármagn skorti til aðgerða.

<>

Ein helsta orsök vegblæðinga í klæðingu eru þungaflutningar, ekki íblöndunarefnin sem notuð eru. Verkefnastjóri hjá Vegagerðinni segir hægt að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir en fjármagn skorti.

Þungaflutningar helsta orsökin
„Á sumrin er það sérstaklega hitinn sem veldur,“ segir Jón Helgi Helgason, verkefnastjóri hjá stoðdeild Vegagerðarinnar. „Við þennan mikla hita sem myndast við veginn, sem er allt upp undir 60 gráður, þá þrýstast steinefnin niður úr bikinu og bikið situr eftir í yfirborðinu. Það gerist eingöngu frá þungum ökutækjum.“

Núningur og hiti frá dekkjunum valdi því svo að það byrjar að blæða.

Jón segir íblöndunarefnin sem oft eru nefnd skipta einhverju máli en að þau séu ekki lykilatriði. Blæðingar hafi líka orðið þegar terpentínan White Spirit var notuð hér áður fyrr.

„Þær væru verri í dag ef við værum að nota White Spirit,“ segir Jón. „Því það safnaðist meira á hjólbarða þegar það gerðist. Þó þú værir með hreint bik þá gætirðu lent í því a það byrjaði að blæða við réttar aðstæður.“

Fyrirbyggjandi aðgerðir gætu lágmarkað hættu
Jón segir Nýsjálendinga einnig glíma við blæðingar en þeir séu framarlega í fyrirbyggjandi aðgerðum sem Vegagerðin vilji innleiða hér.

„Við gætum lagt malbik í miklu meira mæli, þá erum við alveg búin að fyrirbyggja blæðingarnar sem koma í klæðingu. Við þurfum líka að fræsa upp vegi sem eru með mörgum lögum af klæðingu, gamla vegi. Síðan væri hægt að háþrýstiþvo hluta af bikinu úr yfirborðinu.“

Engin tæki til að háþrýstiþvo bik eru til á landinu en Isavia flytur slíkt inn einu sinni á ári og næsta sumar stendur til að láta á það reyna.

Allt kostar þetta þó peninga, sem eru af skornum skammti, og Jón segir að Vegagerðin rétt nái að sinna lágmarksviðhaldi á vegakerfinu eins og er.

„Þetta snýst um öryggi og það er alveg sorglegt að segja frá því að við getum ekki sinnt þessum fyrirbyggjandi aðgerðum eins og við vildum. Við ætlum að reyna að bæta úr því eins og við mögulega getum.“

Heimild: Ruv.is