Home Fréttir Í fréttum Fagnar 400 nýjum störfum við Hvammsvirkjun

Fagnar 400 nýjum störfum við Hvammsvirkjun

63
0
Anton Kári Halldórsson, sem er formaður stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Stóru málin á Suðurlandi eru samgöngur og orkumál með sérstaka áherslu á að arður af orkunni verði að hluta til eftir heima í héraði. Þetta segir formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, sem fagnar í leiðinni fjögur hundruð nýjum störfum við Hvammsvirkjun, sem hann segir að verði meira og minna skipuð erlendu vinnuafli.

<>

Um 70 sveitarstjórnarmenn sátu ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, auk fjölmargra gesta, sem fór fram á Hótel Örk í gær og lauk síðdegis í dag. Mörg mál voru til umfjöllunar og margar ályktanir samþykktar.

En hvaða mál eru það sem eru efst á baugi hjá sveitarstjórnarfólki á Suðurlandi?

„Stóru málin eru alltaf á Suðurlandi samgöngumál og vegakerfið hvort, sem það eru stofnvegir eða tengivegir og orkumálin og að arður af orkunni verði eftir heima í héraði,” segir Anton Kári Halldórsson, formaður stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.

Ársþingið tókst einstaklega vel en það var haldið á Hótel Örk í Hveragerði
Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Okkur sárvantar nýja Ölfusárbrú, okkur vantar göng til Vestmannaeyja og okkur vantar uppbyggingu á þjóðvegakerfinu í heild því það er gríðarlega umferð um Suðurland,” bætir Anton Kári við.

Anton Kári segir að allflestir sveitarstjórnarmenn séu spenntir fyrir virkjunaráformum á Suðurlandi en leggur í leiðinni áherslu á að arðurinn verði að hluta til eftir í sveitarfélögunum til uppbyggingar þar.

Fjölmargar ályktanir voru samþykktar á ársþinginu.
Magnús Hlynur Hreiðarsson

400 manns munu fá starf í Hvammsvirkjun, hvaðan mun þetta fólk koma?

„Ég býst við að stærsti hlutinn þeirra verði erlent vinnuafl en að sjálfsögðu geta allir fengið vinnu og það er eins og staðan á Suðurlandi er í dag í framkvæmdum, í sem sagt byggingaframkvæmdum í ferðaþjónustu að það er mikið til rekið á erlendu vinnuafli, sem er gott en það er líka krefjandi fyrir sveitarfélagið og að sinna fjölmenningarmálum og þar viljum við gera vel sveitarfélög á Suðurlandi,” segir Anton Kári.

Heimild: Visir.is