Home Fréttir Í fréttum Miklu fleiri vilja hlutdeildarlán en fá

Miklu fleiri vilja hlutdeildarlán en fá

13
0
Hlutdeildarlán eru einungis veitt til kaupa á nýbyggingum. Þær er margar að finna í Úlfarsárdal í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun bárust alls 145 umsóknir um hlutdeildarlán í október að andvirði 1.879 milljónum króna, en einungis 800 milljónir króna eru til úthlutunar fyrir tímabilið.

<>

Í tilkynningu þess efnis á vef HMS segir að stofnunin stefni að því að ljúka yfirferð innsendra umsókna í lok þessarar viku og muni svo ákvarða hverjar þeirra hljóta hlutdeildarlán.

HMS opnaði aftur fyrir hlutdeildarlán þann 4. október, en hægt var að sækja um lánin til og með 21. október.

Flestir með samþykkt kauptilboð

Í tilkynningunni segir að af þeim 145 umsóknum sem bárust um hlutdeildarlán í október hafi 112 umsóknir verið með samþykkt kauptilboð og 33 umsóknir án kauptilboðs.

Heildarfjárhæð umsókna í október hafi verið um 1.870 milljónir króna og þar af hafi umsóknir með samþykktu kauptilboði numið samtals um 1.447 milljónum króna.

Dregið af handahófi

Þá segir að í forgangi séu umsóknir þar sem staðfest kauptilboð liggur fyrir, auk þess sem miða skuli við að á hverju ári verði að minnsta kosti 20 prósent veittra hlutdeildarlána veitt til kaupa á íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins. Ekki verði hægt að gefa út lánsvilyrði fyrr en allar umsóknir hafa verið metnar.

„Til úthlutunar fyrir umsóknartímabilið voru 800 milljónir króna og liggur því sem næst fyrir að draga þurfi af handahófi úr umsóknum sem eru utan fyrsta forgangs.“

Opnað verði aftur fyrir nýtt umsóknartímabil hlutdeildarlána í nóvember. Nánari upplýsingar verði veittar síðar.

Heimild: Visir.is